135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sveitarstjórnarlög.

64. mál
[16:36]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég hef lagt fram á þingi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Það er frumvarp sem ég legg fram ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Rétt er að geta þess að frumvarpið var áður flutt á 133. löggjafarþingi og 1. flutningsmaður þess var þá hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Frumvarpið er endurflutt nú í óbreyttri mynd.

Meginefni þessa frumvarps er að tryggja þeim stjórnmálasamtökum, framboðslistum, stjórnmálaflokkum eða stjórnmálasamtökum sem fulltrúa eiga í sveitarstjórnum aðgang að nefndum og ráðum viðkomandi sveitarfélags, óháð því hvernig kaupin gerast á eyrinni þegar myndaðir eru meiri hlutar í sveitarstjórnum. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 5. mgr. 38. gr. laganna og orðist sú grein þannig, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, skal heimila framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í byggðarráð að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.“

Í gildandi lögum segir, með leyfi forseta, í þessari málsgrein:

„Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, getur heimilað framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í byggðarráð að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Skal heimila framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi í byggðarráði slíkan rétt þann tíma sem sveitarstjórn fellir niður fundi sína vegna sumarleyfis.“

Sambærileg breytingartillaga er gerð varðandi einstakar nefndir sveitarfélaganna, en þar er lagt til að á eftir 1. mgr. 40. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn, sem kjörin er bundinni hlutfallskosningu, skal heimila framboðsaðila sem fulltrúa á í sveitarstjórn en eigi nær kjöri í nefndir og ráð skv. 1. mgr. að tilnefna fulltrúa til að sitja fundi þeirra nefnda og ráða með málfrelsi og tillögurétti. Sveitarstjórn getur ákveðið í samþykktum sínum, sbr. 10. gr., að ákvæði 1. málsl. gildi um fleiri nefndir og ráð á vegum sveitarfélagsins.“

Þessi breytingartillaga gengur út á það að tryggja að framboðslistar, stjórnmálasamtök sem eiga fulltrúa í sveitarfélögum eða sveitarstjórnum, geti átt kost á að fylgjast með og taka þátt í starfi byggðarráða og/eða nefnda og ráða sveitarfélaganna jafnvel þó að þau eigi ekki kjörinn fulltrúa í viðkomandi nefnd eða ráði.

Í gildandi lögum er, eins og ég hef þegar vitnað í, ákvæði sem heimilar sveitarstjórn að ákveða að framboðslistar geti tilnefnt áheyrnarfulltrúa í slíkar nefndir. Þessi heimild hefur verið nýtt, m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur en þar segir m.a. í samþykkt um borgarstjórn Reykjavíkur í 12. gr. þar sem fjallað er um forsætisnefnd borgarstjórnar Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Nú á framboðslisti sem fær kjörinn fulltrúa í borgarstjórn ekki fulltrúa í forsætisnefnd skv. 1. málsl. og skal hann þá tilnefna borgarfulltrúa úr sínum röðum sem áheyrnarfulltrúa í forsætisnefnd með málfrelsi og tillögurétt.“

Með sama hætti segir þar t.d. í 48. gr. um nefndir og ráð, með leyfi forseta:

„Framboðslista sem á fulltrúa í borgarstjórn er heimilt að tilnefna borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa til að sitja fundi borgarráðs eða fagráða skv. 61. gr. með málfrelsi og tillögurétt, enda eigi hann ekki fulltrúa í viðkomandi ráði.“

Hér er sem sagt nokkur munur á því hvernig málið er nálgast, annars vegar með þessari breytingartillögu og þeirri reglu sem sett hefur verið í samþykkt um borgarstjórn Reykjavíkur og síðan hins vegar gildandi ákvæði, því að í gildandi lögum er einungis um að ræða heimildarákvæði sem er þá undir meiri hluta sveitarstjórnarinnar hverju sinni komið hvort hún vill heimila minnihlutaaðilum að tilnefna áheyrnarfulltrúa eða hins vegar eins og hér er lagt til að það sé sjálfstæður réttur viðkomandi framboðsaðila að tilnefna áheyrnarfulltrúa.

Í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, bæjarmálasamþykkt þar, er t.d. farin sú leið að segja í 61. gr. hennar, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn getur heimilað flokki eða framboðsaðila sem fulltrúa á í bæjarstjórn en ekki hefur fengið kjörinn bæjarráðsmann að tilnefna fulltrúa til setu í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétt. Skylt er bæjarstjórn að gefa fulltrúa flokks/framboðsaðila kost á setu í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétt þann tíma sem fundir bæjarstjórnar falla niður vegna sumarleyfa.“

Svipuð leið er farin, sýnist mér, í Kópavogi þar sem þessi heimild er bundin við bæjarstjórnina sjálfa, þ.e. hún getur sjálf ákveðið þetta en til þess þarf að sjálfsögðu meirihlutasamþykki.

Það er skoðun mín að þetta sé mikilvægt lýðræðismál, enda er tillögunni sem hér er flutt ætlað að auka lýðræðið í sveitarfélögunum. Það eru dæmi um það, bæði er stærðfræðilega hægt að sýna fram á það og síðan eru til ákveðin dæmi um slíkt að framboðslisti sem t.d. fær 10% atkvæða í sveitarstjórnarkosningum eigi engan fulltrúa í byggðarráði eða öðrum ráðum og nefndum sveitarfélagsins ef viðkomandi aðili er í minni hluta í sveitarstjórninni. Á sama tíma getur flokkur sem t.d. fær 5% eða 6% atkvæða átt fulltrúa í hverri einustu nefnd í gegnum samkomulag um aðild að meiri hluta.

Þessi staða leiðir til lýðræðishalla sem er full ástæða til að vinna gegn. Fyrir kjósendur sem í hlut eiga, fyrir kjósendur sem kjósa tiltekinn flokk á ekki að skipta máli hvort viðkomandi flokkur er í meiri hluta eða minni hluta. Þeir eiga alveg sama rétt til þess að umbjóðendur þeirra eða umboðsaðilar í sveitarstjórninni geti fylgst með og tekið þátt í stefnumótun og störfum viðkomandi sveitarfélags/sveitarstjórnar.

Nú hefur það heyrst í umræðum um þetta mál, því að ég hef áður tekið þátt í umræðum um þetta mál þegar ég beitti mér fyrir því sem forseti borgarstjórnar Reykjavíkur að umrædd áheyrnarfulltrúaákvæði voru sett inn í samþykkt um borgarstjórn Reykjavíkur, að þetta mundi bara leiða til þess að fulltrúum í viðkomandi byggðarráði eða viðkomandi nefnd mundi fjölga, hugsanlega um einn eða tvo. En sannleikurinn er sá að það er sífellt verið að færa fleiri verkefni og völd til sveitarfélaganna, til sveitarstjórnanna sem síðan hafa verið að færa verkefni og jafnvel ákvarðanir og umboð niður stigann hjá sér, má segja, til einstakra nefnda og ráða og það leiðir til þess að þeir fulltrúar, þeir stjórnmálaflokkar sem af einhverjum ástæðum, stærðfræðilegum væntanlega, eiga ekki fulltrúa í tilteknum nefndum geta ekki tekið þátt í stefnumótunarvinnu í viðkomandi málaflokki, í viðkomandi nefnd, fyrr en á allra síðustu stigum, þ.e. þegar málin koma til umfjöllunar í bæjarstjórninni sjálfri. Það getur þess vegna leitt til enn meiri og flóknari umræðu þegar málin eru fyrst undirbúin í einstökum nefndum af þeim sem þar eiga sæti en eru svo aftur tekin upp alveg frá grunni á fundum sveitarstjórnarinnar sjálfrar af þeim aðilum sem ekki hafa átt tök á því að koma að stefnumótuninni og málatilbúnaði strax á frumstigi. Ég held því að jafnvel þó að fjölga mundi í einhverjum nefndum og ráðum um einn eða tvo áheyrnarfulltrúa í vissum tilvikum, þá breyti það ekki því að umræðan og stefnumótunarvinnan getur orðið hnitmiðaðri í nefndum og ráðum sveitarfélags en að fá alla þá umræðu inn í sveitarstjórnina sjálfa.

Þetta eru meginrökin fyrir því að við flytjum þessa tillögu. Við teljum það mikilvægt lýðræðismál að tryggja öllum sem fara með umboð kjósenda í sveitarstjórn aðkomu að umræðum, tillögum og stefnumótun í nefndum og ráðum sveitarfélagsins og við teljum að það eigi að gera með því að viðkomandi framboð geti tilnefnt áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétti. Við teljum að þetta geti sömuleiðis leitt til hnitmiðaðri vinnu í sveitarfélögunum og að það sé í anda sveitarstjórnarlaganna að reyna að tryggja sem breiðasta samstöðu um afgreiðslu mála. Enda má rifja það upp að í sveitarstjórnarlögunum er hvergi talað um meiri hluta og/eða minni hluta. Í raun og veru er sveitarstjórnin fjölskipað stjórnvald þar sem allir sem fulltrúa eiga eða fá fulltrúa kosna í sveitarstjórn eiga jafnan rétt og eiga að koma að málum varðandi stefnumótun og hlutverki nefnda og ráða.

Við flutningsmenn þessa frumvarps leggjum til að framboðsaðilum verði tryggður þessi sjálfstæði réttur til að nefna áheyrnarfulltrúa í byggðarráð og í nefndir og ráð sveitarfélaganna, þannig að allar raddir fái að heyrast óháð því, eins og ég sagði í upphafi, hvort viðkomandi stjórnmálasamtök eru í meiri hluta eða minni hluta. Enda getur það verið býsna hverfult eins og við þekkjum mörg dæmi um af sveitarstjórnarstigi að meiri hlutar koma og fara og flokkur sem í dag er í meiri hluta getur verið í minni hluta á morgun og öfugt. Þetta höfum við t.d. séð í Reykjavík. Við getum tekið sem dæmi að í 1. meiri hluta núverandi borgarstjórnar, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, var það tryggt að Framsóknarflokkurinn sem fékk um 6% atkvæða í kosningunum átti fulltrúa í hverju einasta ráði með atkvæðisrétti en til að mynda F-listinn, Frjálslyndi flokkurinn, sem fékk 10% átti einungis áheyrnarfulltrúa. Nú hefur þetta snúist við, F-listinn með sín 10% er nú kominn með fulltrúa í hvert einasta ráð með atkvæðisrétti en það hefur komið í hlut Framsóknarflokksins að vera með áheyrnarfulltrúa. Þetta getur því verið hverfult og það á í raun og veru ekki að skipta máli, því að kjósandinn, íbúinn í sveitarfélaginu á alveg sama rétt. Hann á rétt á því að sá sem hann hefur kosið til trúnaðarstarfa eigi aðild að og geti tekið þátt í þeim trúnaðarstörfum sem fara fram á vettvangi sveitarfélagsins. Og með því að æ fleiri verkefni færast til sveitarfélaganna og sveitarstjórnirnar sjálfar eru að færa verkefni til nefnda og ráða á sínum vegum í ríkara mæli, jafnvel til fullnaðarafgreiðslu, þá verður þetta enn mikilvægara. Við leggjum því til þessar litlu breytingar á sveitarstjórnarlögunum

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.