135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sveitarstjórnarlög.

64. mál
[16:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að flytja frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Mér fannst rétt og skylt að vera viðstaddur þessa umræðu. Þetta er dálítið tímamótafrumvarp vegna þess að þetta er fyrsta frumvarp um sveitarstjórnarmál eftir að sveitarstjórnarmál fluttust yfir í samgönguráðuneytið. Það er ánægjulegt og ágætt að tekið skuli á því máli sem hér er flutt.

Ég hlustaði af athygli með og las að sjálfsögðu greinargerð sem fylgir með þessu frumvarpi um það sem gert hefur verið í borgarstjórn Reykjavíkur, með fulltrúana þar og reyndar í Hafnarfirði og Kópavogi líka. Varðandi lýðræðishallann og það að auka lýðræðið þá getur einnig verið, eins og fram kom, að flokkar sem ekki eru í meiri hluta og ekki hafa atkvæðamagn til að komast að séu þar inni, gætu bætt vinnubrögð í sveitarstjórninni sjálfri. Allt gott um það. Hins vegar vil ég hafa þann fyrirvara, virðulegi forseti, þótt ég leggist ekki gegn því, að mér finnst þetta athyglisvert, að bíða eftir og heyra umsagnir litlu sveitarfélaganna hvað þetta varðar. Það er í þessu, eins og svo mörgu öðru í sveitarstjórnarmálum, að það munar töluvert miklu á hvort menn eru að ræða um borgarstjórn Reykjavíkur eða sveitarstjórn Grímseyjarhrepps svo maður taki dæmi, eða sveitarstjórn Árneshrepps sem ég held að sé minni.

Ég tel eðlilegt að þetta fari sinn gang og nefndin, sem hv. þingmaður á sæti í og núverandi starfandi formaður samgöngunefndar, hv. þm. Ólöf Nordal, sendi það til umsagnar. Og ég mundi leggja það til að senda málið út til sveitarfélaganna allra, ekki eingöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mér finnst sjálfsagt að fá álit fulltrúa litlu sveitarfélaganna á þessu, hvort þau séu hlynnt málinu eða ekki. Inn í þetta blandast líka kostnaðurinn, þótt það sé kannski minnsta atriðið í umræðunni um aukið lýðræði. Engu að síður er rétt að hafa hann í huga.

Ég vil bara segja að gæta verður að rétti minni hluta. Hér var mikið rætt um það þegar breytingar voru gerðar á kosningum til Alþingis, voru það ekki 4% sem sett voru sem lágmark, sem flokkur þarf að fá til að eiga möguleika á að fá mann kjörinn á Alþingi. Svo er ekki í sveitarstjórnum og blandast auðvitað inn í þetta líka.

Virðulegi forseti. Ég þakka að lokum hv. þingmanni fyrir að leggja málið fyrir þingið. Ég vænti þess að nefndin taki það til yfirferðar eins og öll mál sem þangað koma. Gaman verður að sjá hvað kemur út úr því í umsögnum frá sveitarfélögum og hjá öðrum sem láta sig þetta mál varða, hvort sem við náum þessu í gegn á þessu þingi eða við frekari endurskoðun sveitarstjórnarlaga. En hér hefur brýnu og góðu máli verið hreyft.