135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sveitarstjórnarlög.

64. mál
[16:52]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir viðbrögð hans við þessu frumvarpi. Ég satt að segja áttaði mig ekki á þeirri staðreynd sem hann benti á, að þetta væri fyrsta frumvarp á sveitarstjórnarstigi eftir að málaflokkurinn var færður í samgönguráðuneytið, mér er heiður að fá að tala fyrir því. (Gripið fram í: Viðeigandi.) Kannski viðeigandi.

Mig langar aðeins að bregðast við því sem hann sagði, að það verði áhugavert að fá umsagnir allra sveitarfélaganna. Ég tel einboðið að samgöngunefnd muni leita eftir viðhorfum allra sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og hugsanlega fleiri aðila eftir atvikum. Ég geri mér grein fyrir því að einkum og sér í lagi smáum sveitarfélögum gæti vaxið í augum kostnaður við málið, ef því fylgir kostnaður.

Í frumvarpinu er út af fyrir sig ekki beinlínis tekið á því hvort áheyrnarfulltrúar mundu fá greitt með sama hætti og kjörnir fulltrúar. Sennilega er erfitt að komast undan því þótt þetta frumvarp taki ekki beinlínis á því. En það má vel vera að erfitt verði að komast hjá því og þá gæti málið þýtt einhvern kostnaðarauka fyrir sveitarfélög, ekki síst hin smærri.

En frá mínum bæjardyrum séð snýst málið fyrst og fremst um að tryggja ákveðið lýðræði og jafnvel að bæta umfjöllun um mál í sveitarfélögunum. Af því að ráðherrann gat um að ekki væri sérstakt lágmark til að fá fulltrúa kjörinn í sveitarstjórn eins og er á Alþingi, með fjórum prósentum eða fimm, má segja að þetta gerist sjálfkrafa í sveitarstjórnum þar sem eru bæjarfulltrúar eða hreppsnefndarmenn, að til að fá fulltrúa í sveitarstjórn þurfi framboðið í raun að fá einn sjöunda atkvæða, þ.e. 14%. Það getur verið eitthvað breytilegt eftir því hvernig atkvæðin skiptast en í meginatriðum má segja að það sé hinn raunverulegi þröskuldur að komast yfir til að fá fulltrúa kjörinn í sveitarstjórn, einhvers staðar í námunda við 14%, miðað við sjö manna sveitarstjórn. Í ellefu manna sveitarstjórn væri það í kringum 9% þannig að það er innbyggður í þessa tölu ákveðinn þröskuldur.

Sveitarstjórnir á Íslandi eru mjög fámennar miðað við það sem við þekkjum í kringum okkur. Þær eru fámennar í samanburði við Alþingi, þar sem eru 63 fulltrúar. Á bak við hvern kjörinn fulltrúa á Alþingi gætu verið 2.000–3.000 íbúar, eitthvað þess háttar svona í fljótu bragði. Í borgarstjórn Reykjavíkur eru sennilega 5.000 íbúar á hvern borgarfulltrúa eða 4.000. Það er örugglega einsdæmi í heiminum að fleiri íbúar séu á hvern kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn en á þingi. En þetta er tilfellið, að minnsta kosti er varðar hlutföllin milli borgarstjórnar Reykjavíkur og Alþingis.

Þróunin hefur verið sú undanfarin ár að sveitarfélög hafa sameinast og stækkað. Það er mjög jákvæð þróun að mínu mati. Um leið hefur sveitarstjórnarfólki, kjörnu sveitarstjórnarfólki, fækkað. Með því að sveitarstjórnir hafa verið sameinaðar hefur fjölgun sveitarstjórnarmanna aldrei verið sambærileg. Þegar tvö sveitarfélög, t.d. með sjö og níu sveitarstjórnarmönnum eða níu og fimm, sem alls ekki er óalgengt, verður nýja sveitarstjórnin níu manna eða í mesta lagi ellefu manna. Kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum hefur því fækkað.

Það má færa rök fyrir því að í því felist ákveðinn lýðræðishalli þegar fjölgar atkvæðum, kjósendum eða íbúum á bak við hvern kjörinn fulltrúa. Um það mætti hafa langa umræðu og fræðilega ef menn vildu og gæti verið skemmtilegt að skoða frekar í nefndinni. En það er kannski annað mál.

Við leggjum þetta upp þannig að mikilvægast sé að nálgast þetta út frá ákveðinni lýðræðisspurningu. Ég hef sannfæringu fyrir því af reynslu minni úr borgarstjórn Reykjavíkur, þótt það sé kannski ekki dæmigerð sveitarstjórn á íslenskan mælikvarða, að betri og gagnmerkari umræður fáist í nefndum og ráðum ef öll sjónarmið koma þar fram strax á frumstigi. Ég tel það æskilegra og betra fyrir málið í heild sinni en að einstakir flokkar eða fulltrúar komi ekki að málum fyrr en á síðustu stigum. Þá þarf í raun að rífa málið allt upp á nýtt og reiða fram öll gögn á nýjan leik o.s.frv. Við það eru því margir ókostir.

Ég vil líka geta þess að þegar við gerðum þessar breytingar og samþykktum í borgarstjórn Reykjavíkur þá var alger þverpólitísk samstaða allra flokka sem þar áttu sæti um að skynsamlegt væri að tryggja aðkomu allra flokka í nefndir og ráð. Ég hygg að í meginatriðum sé það viðhorf líka annars staðar.

Það er hárrétt hjá hæstv. samgönguráðherra að víða kunna menn að horfa í kostnaðaraukann og væri kannski mikilvægt að fá það fram. Ef það reynist sérstakt áhyggjuefni manna í þessu efni munum við væntanlega taka umræðu um það á vettvangi nefndarinnar. Hitt er þó ekki síður mikilvægt, að fá fram afstöðu til efnisinnihalds tillögunnar og þess sem við teljum okkur taka á með því að tryggja betra og bætt lýðræði í sveitarstjórnum.