135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

348. mál
[17:00]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson og Atli Gíslason.

Frumvarpið er aðeins tvær greinar, sem sagt afar einfalt að sniði, og gengur út á að felld verði úr lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á vínveitingastöðum. Eftir stæði því algjört bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Frumvarpið á sér auðvitað nokkurn aðdraganda. Þessum lögum hefur verið breytt, ég held að þau hafi verið í heildarendurskoðun 2007. Þá var þessari grein er varðar nektardansstaði og næturklúbba breytt, lesa mátti úr stefnu þáverandi stjórnvalda að reyna ætti að sporna við þeirri tilhneigingu að vera með nektardansstaði og bjóða upp á nektarsýningar á veitingastöðum. Engu að síður var þessi undanþáguheimild byggð inn í greinina og hefur síðan valdið nokkrum styr.

Þannig háttar til í Reykjavíkurborg að meiri hluti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar og þáverandi Frjálslynda flokksins fékk samþykkta í mannréttindayfirlýsingu Reykjavíkurborgar grein sem gengur út á það að Reykjavíkurborg og yfirvöld í Reykjavíkurborg vilji vinna gegn klámvæðingu og vændi og af þeim sökum sé mikilvægt að sporna áfram við rekstri nektardansstaða í borginni. Þetta mun vera í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og unnið hefur verið samkvæmt þessari grein í nokkrum málum sem hafa komið upp þegar nektardansstaðirnir þrír sem starfræktir hafa verið innan borgarmarkanna hafa verið að sækja um endurnýjun starfsleyfa.

Í ágúst 2007 komu fréttir af því að útlit væri fyrir að þessum þremur nektardansstöðum yrði lokað þar sem leyfisveitandi, sem er lögreglustjórinn í Reykjavík, hefði lýst þeirri afstöðu sinni að undantekningarlaust eigi að neita skemmti- og vínveitingastöðum um heimild til nektardans. Síðan hef ég ekki fylgst grannt með því, hæstv. forseti, hvort af þessum lokunum hefur orðið en í öllu falli geri ég ráð fyrir því að þessi stefna sé enn við lýði í Reykjavíkurborg þó að nýr meiri hluti hafi tekið þar við.

Þetta nefni ég nú vegna þess að það er kannski fyrst og síðast í Reykjavíkurborg sem þessir staðir hafa verið að hasla sér völl þó að Kópavogur hafi reyndar til skamms tíma hýst stað af þessu tagi. Mér er ekki fullkunnugt um þær samþykktir yfirvalda í Kópavogi sem lúta að þessum stöðum en eitthvað held ég að þau sjónarmið sem ég hér tala fyrir séu að ná eyrum þeirra sem þar fara með völd líka, í öllu falli vona ég það.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að sérfræðingar um kynferðisofbeldi hafa bent á að í skjóli nektardansstaða þrífist í mörgum tilfellum eiturlyfjasala og vændi, auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem starfa á slíkum stöðum séu neyddar til starfans eður ei. Í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi hér á landi fyrr á þessum vetri ritaði Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur Alþjóðahússins, grein í Morgunblaðið — það mun hafa verið þann 3. desember 2007, og yfirskriftin var „Um mansal á Íslandi“. Í grein Margrétar kemur fram að á fundi íslenskra samstarfsaðila í þriggja ára tilraunaverkefni gegn mansali hafi fulltrúar Alþjóðahúss, Kvennaathvarfs, Stígamóta, lögreglunnar og félagsþjónustunnar allir staðfest að þeir hafi átt samskipti við fórnarlömb mansals hér á landi.

Virðulegi forseti. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um að sú alþjóðlega glæpastarfsemi sem gengur út á að hagnýta sér bága stöðu kvenna til að leiða þær út í vændi eða aðra kynlífsþjónustu teygi anga sína hingað til lands og hafi jafnvel fest hér rætur. Auk greinar Margrétar Steinarsdóttur má í þessu sambandi nefna skýrslur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um vændi, þ.e. starfshóps sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið og hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra setti á laggirnar 2001 og reyndar aftur 2002. Þar er um að ræða skýrslur sem greina frá félagslegu umhverfi vændis á Íslandi og rannsóknum á umfangi vændis. Varðandi þessi sjónarmið má einnig vitna til þemaheftis Nordisk institutt for kunnskap om kjønn , sem kom út árið 2002, en þar er fjallað um mansal og tengslin milli mansals og vændis.

Í ljósi þess að líkur eru á að vændi og mansal þrífist í skjóli nektardansstaða er erfitt að finna rök fyrir því að lögin veiti heimild til undanþágu frá almennu reglunni um að nektarsýningar skuli óheimilar á veitingastöðum. Ástæðan fyrir banninu á sínum tíma var jú að nýta það í baráttunni gegn vændi og mansali en undanþáguákvæðið gerir ekkert annað en að stríða gegn því meginmarkmiði.

Hæstv. forseti. Umræða undangenginna ára um kynlífsþrælkun kvenna um allan heim hefur kennt okkur til hvaða úrræða hægt er að grípa. Þau úrræði hafa verið kynnt til sögunnar hér á landi, m.a. í frumvarpi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um fórnarlambavernd, sem síðast var flutt á 133. þingi, á þskj. 39, og sömuleiðis í frumvarpi um að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Það var síðast flutt sem breytingartillaga við frumvarp til almennra hegningarlaga á 133. þingi en kom reyndar ekki til atkvæða af ákveðnum ástæðum. En ef ég man rétt, ef mér skjöplast ekki í þeim fjölda þingmála sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum verið að leggja fram upp á síðkastið, minnir mig að þetta mál sé komið fram á nýjan leik og ég geri ráð fyrir að það gangi þá sinn gang á þessu þingi og vonandi nær það að koma til atkvæða. Það er nú þannig að þegar maður er búinn að tala oft fyrir sömu þingmálunum þá ruglast maður í því á hvaða þingi það er og kannski eðlilegt að fólk sjái í gegnum fingur við mann hvað þetta varðar.

Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað hvatt til þess að Palermo-samningurinn og viðauki við hann, þar sem segir m.a. að stjórnvöld skuli tryggja fórnarlömbum mansals vernd, ráðgjöf og upplýsingar, verði fullgiltur hér á landi. Við höfum líka auglýst eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali, án árangurs þar til nú að í lok 16 daga átaksins, sem áður er nefnt, gegn kynbundnu ofbeldi, tilkynnti hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, að bætt skyldi úr í þessum efnum og unnin skyldi aðgerðaáætlun. Hefur nú verið settur á laggirnar starfshópur í félagsmálaráðuneytinu sem á að vinna að því að skila tillögu að aðgerðaáætlun til ráðherrans. Ég vil því lýsa því yfir að með tilkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn eru að verða einhverjar breytingar því að hér hefur verið talað fyrir daufum eyrum þing eftir þing við hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, varðandi úrbætur í þessum efnum. Ég fagna því að nú skuli eiga að gera einhverja bragarbót og þá undir forustu samfylkingarráðherrans, hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það að gera aðgerðaáætlun gegn vændi og mansali er auðvitað fyrirmynd frá Norðurlöndunum og við erum skuldbundin samkvæmt ályktunum sem samþykktar hafa verið á vettvangi Norðurlandaráðs að gera slíkt. Einnig hefur Evrópusambandið unnið ötullega að því að búa til samning fyrir sitt leyti sem við erum í sjálfu sér líka skuldbundin að innleiða. Okkur verður á endanum ekki stætt á öðru en að reka af okkur slyðruorðið í þessum efnum.

Það er mat flutningsmanna þessa frumvarps, hæstv. forseti, að nauðsynlegt sé að komast að rótum vandans. Að okkar mati verður það ekki gert nema með því að reyna að hafa áhrif á eftirspurnina eftir líkama kvenna til kynlífsathafna. Það verður einungis gert með því að koma ábyrgðinni þangað sem hún á heima, þ.e. á kaupendur vændis. Sú tillaga nýtur nú stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Capacent, en þrátt fyrir það hafa íslensk stjórnvöld enn ekki sýnt kjark til að fara þá leið. Ég heiti því að svo lengi sem mér endist kraftur til skal ég reyna að koma slíkri tillögu í gegnum atkvæðagreiðslu hér á Alþingi Íslendinga og það sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Það vekur óneitanlega athygli hversu erfitt virðist vera að fá íslensk stjórnvöld til að axla ábyrgð á þeim mannréttindabrotum sem vísbendingar eru um að framin séu hér á landi. Meira að segja þegar samþykktar eru úrbætur á lagaumhverfi, í formi þeirrar greinar sem hér um ræðir í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e. 4. gr., þarf að veita afslátt frá almennu reglunni í formi undanþáguákvæða, eins og því sem hér er lagt til að verði fellt úr lögunum. Ég lít svo á að þetta frumvarp sé hluti af baráttunni gegn mansali, auk þess sem ég tel að það muni efla almenna siðgæðisvitund og meðvitund um siðræn gildi í samfélaginu. Eins og ég sagði, og hef komið að í máli mínu hér á undan, leggjum við hér til, flutningsmenn, að undanþága til nektarsýninga á veitingastöðum verði felld brott úr íslenskum lögum. Ég tel að það væri sómi fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarpið á yfirstandandi þingi. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra, sem hér situr, og undir hvern málið heyrir, sé mér sammála og treysti því að málið fái skjóta afgreiðslu í nefnd og komi hér aftur til afgreiðslu á Alþingi eftir 2. umr.