135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[17:41]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna. Ég ætla að leggja örfá orð í umræðuna og segja það að mér finnst þetta mál athyglisvert og ég get líka viðurkennt að ég hef ekki séð grundvöll fyrir því að reka hér lestarsamgöngur en hins vegar lít ég svo á að hér séum við að horfa á mál til framtíðar. Við þekkjum öll hvernig samgöngur hafa þróast, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, gríðarleg fjölgun bifreiða og erfiðleikar sem tengjast því þannig að menn hljóta alltaf að leita allra leiða til að greiða úr umferðinni, fyrir utan auðvitað umhverfisþáttinn í þessu öllu saman.

Ég styð þessa tillögu, virðulegi forseti, og tel að menn eigi að fara í þessa vinnu. Það hefur komið fram í umræðunni að það hefur verið fjallað um þessi mál áður, m.a. af hæstv. samgönguráðherra og reyndar framsögumanni málsins sem þekkir þessi mál mjög vel. Engu að síður tel ég að það sé eðlilegt að þessi tillaga verði samþykkt og það verði farið í þetta mál vegna þess að ég lít fyrst og fremst á þetta sem framtíðarmál og ég veit að fleiri gera það. Þetta mál er þess eðlis að nauðsynlegt er að farið sé vel yfir það.

Menn ræða mikið um og reyndar er í tillögunni einnig fjallað um lestarsamgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Það má vel vera að einhvern tíma verði grundvöllur fyrir því. Mér finnst eðlilegt að menn skoði það. Það tengist hins vegar flugvallarmálinu í Reykjavík og ég vil því nota tækifærið í þessari umræðu að lýsa því að ég er eindregið þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllur eigi að vera í eða rétt við Reykjavík og ég hef ekki verið hrifinn af þeim hugmyndum sem menn hafa haft um að færa innanlandsflugið til Keflavíkur, svo ég láti það fljóta með í þessari umræðu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Ég vildi bara rétt leggja inn örfá orð í umræðuna og lýsa því að ég er fylgjandi þessari tillögu. Ég tel að hér sé um mikilvægt framtíðarmál að ræða og að menn eigi að fara eftir þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.