135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[17:44]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið um þetta mál og þau ágætu orð sem hafa fallið af hálfu þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni og vil bregðast stuttlega við nokkrum atriðum, einkum í máli hæstv. samgönguráðherra sem talaði jákvætt um efni tillögunnar en vakti kannski sérstaklega máls á því að hér væri áreiðanlega um dýra kosti að ræða sem mundu vega þungt þegar málið yrði svo metið.

Ég vil fyrst geta þess, vegna þess að hæstv. ráðherra fjallaði um það hvort sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, einkum og sér lagi Reykjavík, tækju þátt í kostnaði við vinnuna að skömmu eftir að þessi tillaga var lögð fram á hinu háa Alþingi var lögð fram í borgarráði Reykjavíkur efnislega samhljóða tillaga og 1. flutningsmaður hennar þar var borgarfulltrúinn Dagur B. Eggertsson sem er reyndar líka formaður samgönguráðs. Þeirri tillögu var vel tekið þar og henni var vísað til umfjöllunar í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur. Ég hef rætt það mál bæði við formann þess ráðs, Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa, og forseta borgarstjórnar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, um að það sé eðlilegt að samræma þessa vinnu með einhverjum hætti ef Alþingi ákveður að fela samgönguráðherra að láta hana fara fram og að Reykjavíkurborg kæmi þá að sjálfsögðu inn í kostnað vegna þessarar athugunar. Því var vel tekið af þeirra hálfu og raunar talið sjálfsagt og eðlilegt.

Varðandi þá tækni sem ráðherrann nefndi líka, um hina svokölluðu spanbíla sem hlaða sig rafmagni, strætisvagna sem hlaða sig rafmagni á stöðvunum, þá er þetta aðferð sem þekkt er á vissum stöðum og er fullkomlega eðlilegt að leiða hugann að líka hvort gæti verið leið sem við gætum farið. En þá má ekki gleyma því að hún krefst þess, alveg eins og með allar aðrar almenningssamgöngur sem byggja á strætisvögnum, að það séu sérakreinar því að kosturinn við léttlestarnar er auðvitað sá að þær keyra meira og minna aðgreint frá annarri umferð og verða þess vegna ekki fyrir töfum í umferðinni eins og allir almennir bílar eða strætisvagnar. Það er auðvitað liður í því sem þarf að kanna, hvernig hægt er að auka eða fjölga forgangsakreinum fyrir almenningssamgöngur sem virka, því að það hefur ekkert upp á sig ef strætisvagninn er jafnfastur í allri umferð og hver annar, þá er hann auðvitað ekki að flýta ferð manna. Þetta þarf að hafa í huga í þessu samhengi.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann rakti hér um markmiðin um að efla almenningssamgöngur og hin umhverfislegu markmið einnig. Þau eru jákvæð og við erum örugglega öll sammála um það.

Ég vil svo sérstaklega hnykkja á því sem ég gat um í ræðu minni þegar ég fjallaði um fyrri athuganir um þetta mál. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að fara yfir þær athuganir og skoða hvað hefur breyst en því má ekki gleyma að þær tóku fyrst og fremst á einföldum kostnaði við að leggja járnbraut eða léttlestir og hvað gera mætti ráð fyrir mörgum farþegum, spár um það. Þær tóku í raun og veru ekki á þeim þjóðhagslega ábata sem gæti orðið af því að ráðast í eflingu almenningssamgangna með þessum hætti. Þá er ég að tala um hluti eins og aukið umferðaröryggi, minni slysakostnað, ábatann af því að nýta innlenda raforku sem orkugjafa í staðinn fyrir innflutt jarðefnaeldsneyti og hugsanleg áhrif á bætta lýðheilsu o.s.frv. Það eru slíkir þættir. Í þjóðhagslegri arðsemisathugun verður auðvitað að taka alla þessa þætti með í dæmið sem ekki var gert á þessum tíma og að því leyti verð ég að segja að þessar athuganir voru gallaðar hvað þetta snertir en að sjálfsögðu eru þær ágætur grunnur að byggja á.

Sömuleiðis vil ég síðan hnykkja á því sem ég gat um varðandi aukin umsvif á Suðurnesjum. Ég er sannfærður um að þær breyttu aðstæður sem þar hafa orðið, bæði varðandi millilandaflugið og aukningu þess og varðandi uppbygginguna á varnarsvæðinu, eru forsendur sem lágu alls ekki til grundvallar þegar þessar athuganir voru gerðar og engan óraði fyrir í raun að mundu verða. Ég held að það séu líka breyttar forsendur inn í kostnaðar- og arðsemisgreiningu sem við verðum að taka með í dæmið.

Varðandi innanlandsflugið, af því að það var aðeins getið um það hér og m.a. nefndi hv. þm. Magnús Stefánsson það sérstaklega, þá er ekkert tekið á því í þessari þingsályktunartillögu. Halda verður því til haga að flutningsmenn tillögunnar hafa mismunandi afstöðu til innanlandsflugs í Vatnsmýrinni og þessi tillaga er flutt alveg óháð afstöðu manna til þess. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gat um að hugmyndir manna um uppbyggingu í Vatnsmýri sem hafa verið kynntar benda auðvitað á ýmsar spennandi lausnir í samgöngumálum varðandi það svæði og við getum haft mismunandi skoðanir á því svæði. Þessi tillaga byggir ekki að neinu leyti á því hvað kann að verða í Vatnsmýri eða að flugvöllurinn flytjist þaðan. Hún gerir það ekki og er mikilvægt að halda því til haga.

Ég vil gjarnan koma afstöðu minni til flugvallarins á framfæri hér og vil þá kannski segja fyrst að ég hef farið í marga hringi í flugvallarmálinu í gegnum árin og það er ekkert óeðlilegt að afstaða manna breytist frá einum tíma til annars eftir því sem menn skoða þau mál og hvernig þeir nálgast þau. Afstaða mín hefur gjarnan verið sú og er það núna að það séu miklir möguleikar í uppbyggingu Vatnsmýrarinnar fyrir samfélagið á suðvesturhorninu og það felist mikil tækifæri í því. Á sama tíma hef ég líka talið mikilvægt að Reykjavík ræki hlutverk sitt sem höfuðborg, m.a. með því að tryggja góðar samgöngur og góðan aðgang allra landsmanna að borginni og þess vegna finnst mér mikilvægt að flugvöllur sé í eða í námunda við borgina. Mér finnst það ekki endilega vera samasemmerki milli þess og að segja að hann verði að vera í miðborginni sjálfri. Ég hef talið að hér þurfi að vera góðar samgöngur og ef farið verður í uppbyggingu í Vatnsmýri einhvern tímann í framtíðinni verði alla vega að tryggja góðar samgöngur til og frá flugvelli þannig að það séu a.m.k. ekki síðri kostir í boði hvað þetta snertir. Það er í raun og veru annað mál og verður til umfjöllunar á öðrum vettvangi og á öðrum tíma.

Frú forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál. Ég gat um það að ég hefði orðið var við býsna jákvæð viðbrögð svona almennt séð í samfélaginu þó að það vakni vissulega spurningar um arðsemina og möguleika á arðsemi. Mér finnst mikilvægt að nálgast þetta mál með opnum huga, að menn gefi sér ekkert fyrir fram í þessu efni, nálgist málið með opnum huga og meðvitaðir um að við þurfum að leita nýrra lausna í samgöngumálum okkar í þessu mesta þéttbýli á suðvesturhorninu til framtíðar litið. Ég horfi á þetta, eins og hv. þm. Magnús Stefánsson gerði einnig, sem framtíðarmál sem við erum ekki að tala um að verði leitt til lykta endilega á þessu eða næsta kjörtímabili. Hér er um að ræða stefnumörkun til framtíðar og við horfum á lausnir í samgöngumálum til lengri tíma litið.

Ég vonast til þess að samgöngunefnd komist að þeirri niðurstöðu í umfjöllun sinni að rétt sé að láta þessa athugun fara fram og hún feli samgönguráðherra að gera það og í samstarfi við þá aðila sem að því máli óhjákvæmilega koma, sem væru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu m.a. Það er auðvitað hægt að leita til fyrirtækja eins og Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja og annarra orkufyrirtækja sem gætu verið hagsmunaaðilar í þessu samhengi og að sjálfsögðu eðlilegt að leita til ráðgjafa bæði innlendra en ekki síður erlendra. Það leiðir af eðli máls að það eru ekki mjög margir sérfræðingar í lestarsamgöngum hér á landi eða mörg fyrirtæki sem hafa reynslu í ráðgjöf eða uppbyggingu á því sviði og því er eðlilegt að leita einnig til erlendra aðila í því efni. Ég vænti þess að um þetta mál geti orðið ágæt samstaða í þinginu, a.m.k. um að láta þessa hagkvæmniathugun fara fram og að ráðuneytið taki síðan til við það, gjarnan með því að setja einhvers konar verkefnishóp í það sem mundi halda utan um það verkefni með þátttöku stjórnmálaflokka og annarra hagsmunaaðila.