135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:30]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka ítarlegar og gagnlegar umræður um þetta mál þó framhald umræðnanna sé síðbúið. Ég rakti í fyrri ræðu minni að harðar deilur hafa staðið um þetta kerfi um stjórn fiskveiða í meira en tvo áratugi og að um ekkert annað einstakt mál hefur verið tekist á um seinni árum eða seinni áratugum af jafnmikilli hörku í þjóðfélaginu. Lagagrundvöllurinn nær aftur til ársins 1983 og síðan hafa verið gerðar eins og ég hef rakið áður á fjórða tug breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.

Þrátt fyrir allar þessar breytingar hafa, eins og hér hefur komið fram, markmiðin verið þau sömu, þ.e. að vernda fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að þessi markmið hafa aldrei náðst og reyndar höfum við aldrei verið fjær þeim markmiðum varðandi einstakar tegundir eins og þorskinn og loðnuna.

Kerfinu verður þó ekki einu kennt um. Það hafa orðið breytingar á lífríki hafsins, hitafarsbreytingar og sitthvað fleira. En það liggur allt órannsakað vegna fjárskorts. Það er það sem ég er að leggja áherslu á og við sem stöndum að flutningi þessa frumvarps að það verður ekki búið við það að lög gangi gegn grundvallarmarkmiðum sínum, að lög gangi gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að lög gangi gegn áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Því er óumflýjanlegt að taka upp heildarendurskoðun.

Við höfum kosið í þessu máli að leggja upp okkar meginmarkmið með slíkri endurskoðun án þess að leggja upp sértækar tillögur sem kvartað hefur verið yfir. Við komum að þessu af heilum hug þannig að menn geti lagt tillögur sínar í púkkið, þar með hv. þm. Pétur Blöndal um tillögur sem hann hefur reifað og borið fram sem eru allrar skoðunar verðar í slíkri heildarendurskoðun.

Við komum ekki að þessari heildarendurskoðun til leggja fram beinskeyttar, afmarkaðar tillögur og segja að, svona eigi þetta að vera, heldur erum við að leita að heildarendurskoðun og við erum ekki síður að leita að því að það ríki samstaða og sæmileg sátt um þetta kerfi sem ekki hefur verið, sátt milli sjómanna, útgerðarmanna, stjórnvalda, inni á Alþingi og víðar og reyna að koma okkur upp úr þeim skotgröfum sem við höfum verið í og viðurkenna að okkur hefur ekki tekist það sem í upphafi var lagt af stað með. Flóknara er það ekki.

Ég vil víkja að öðru sem mér gafst ekki tími í fyrri ræðu minni til að fjalla nógsamlega um. Þar á ég við umfjöllun í greinargerð flutningsmanna undir fyrirsögninni Sjómenn græða hafið, þ.e. sem fjallar um að teknar verði upp stórfelldar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar, sjómanna og fleiri.

Ég vil nefna dæmi um þörfina á þessum rannsóknum, hina gríðarlegu þörf á þessum rannsóknum. Ég vil líka minna á hér enn og aftur að hafrannsóknir eru 70% upplýsingaöflun sem fjölmargir geta sinnt, 30% úrvinnsla, vísindaleg úrvinnsla sem er hægt að sinna á Hafrannsóknastofnun, í Háskóla Íslands, í Háskólanum í Reykjavík, í Háskólanum á Akureyri, í sjávarsetrum vítt og breitt um landið, en það eru fyrst og fremst sjómennirnir sem hafa verið vanræktir og reynsla þeirra og þá þarf að nýta til þessarar upplýsingaöflunar og að því kem ég síðar.

Við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vorum á fundi á mánudagsmorguninn um loðnuveiðistoppið. Þar voru mættir á þann fund helstu talsmenn í sjávarútvegi á landinu, frá Hafrannsóknastofnun, frá LÍÚ, frá Samtökum sjómanna og fleiri. Það var sameiginlegt sem stóð upp úr öllum þessum aðilum. Í fyrsta lagi vita menn ekki af hverju stafar mjög breytt hegðun loðnunnar síðastliðin nokkur ár. Menn vita það ekki. En einu rannsóknir sem hafa farið fram eru magnmælingar, annað ekki. Það stóð líka upp úr mönnum …

(Forseti (ÞBack): Forseti vill benda hv. þingmanni á að tíminn er liðinn sem hann hefur til umræðu í þessari ræðu.)

Frú forseti. Ég taldi mig eiga 15 mínútur.

(Forseti (ÞBack): Það er rétt. Þetta er röng tímasetning hér á klukkunni. Forseti biðst afsökunar á trufluninni og biður hv. þingmann að halda áfram ræðu sinni. Hann á þá tíu mínútur eftir.)

Takk fyrir það, frú forseti.

Ég vildi segja það varðandi loðnuna og varðandi aðra kvóta að það stóð upp úr mönnum að þeir vissu ekki af hverju. Það er eins og að keyra í náttmyrkri með engin ljós á eða í niðaþoku. Það var samdóma álit allra. Það eina sem hefur gerst varðandi loðnuna eru magnrannsóknir sem byrja í nóvember og standa í desember, janúar og febrúar. Aðspurður sagði sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar í þessu máli, virtur sérfræðingur. „Ég hefði gjarnan viljað snúa þessu við. Ég hefði viljað byrja rannsóknir frá því að loðnan hrygnir og fylgja síðan hrognunum eftir til seiða og til þess að þau ná veiðanlegum aldri. En stofninn í loðnuveiðinni er jú þriggja ára loðna eins og flestir vita. Ég hefði viljað fara þá leið í staðinn fyrir að byrja á hinum endanum. Og hvað þarf í það? Jú það þarf vöktun 200 daga á ári jafnvel og eftirfylgni.“

Við verðum að vita þetta. Þetta er ekki eitthvað eins og með himnaríki sem prestarnir boða en hafa aldrei komið þangað. Þetta eru vísindi og við getum fundið svörin við þessu. Við getum líka fundið svörin við því af hverju okkur hefur ekki tekist að finna út hvers vegna þorskstofninn stendur svona tæpt. Það liggja engin svör til staðar. Þau eru til.

En rannsóknir hafa verið vanræktar og það hefur verið viðvarandi fjárskortur í greininni. Það stóð upp úr öllum líka. Þetta gildir ekki bara um loðnuna sem ég er að tala um. Þetta gildir um þorskinn líka. Það hafa verið deilur milli sjómanna, ekki um mælingar á loðnunni endilega heldur um forsendur mælinga. Auðvitað verður að vera samstarf milli sjómanna og vísindamanna á þessu sviði. Menn skyldu ekki gera lítið úr þekkingu og reynslu sjómanna hér. Ég ítreka að hér er um 70% upplýsingasöfnun að ræða og það er einfalt fyrir sjómenn og útgerðarmenn að afla þessara upplýsinga. Eins og fiskiskip landsins eru tæknilega búin í dag þá liggur þar fyrir mikið af upplýsingum, ótrúlegt magn. Það er hægt að bæta í þau verkefni og gera fiskveiðiflotann að rannsóknarflota samfara veiðum. Það er svo einfalt

Það er reyndar þannig að sjómönnum er í blóð borið að afla upplýsinga. Þeim er það í blóð borið. Skipstjórar skrá dagbækur. Vélstjórar skrá dagbækur. Fjöldi sjómanna hefur fylgst með hitastigi í sjó svo árum skiptir. Skipstjórar og sjómenn skrá veiðislóð. Þeir vita hver gefur og hver gefur ekki síðustu 20, 30 árin sem þeir hafa verið á sjó. Og þeim er svo í blóð borið að skrá og safna upplýsingum um hafið að eftir að þeir hættu á sjó þá halda þeir dagbækur hver um annan þveran. Það er helst ekki hægt að rífast við sjómenn um staðreyndir vegna þess að þeir slá þá alltaf upp í dagbókinni sinni og vita staðreyndir. Það á að nota þessa þekkingu sjómanna, þessa reynslu og þessa forvitni þeirra til að efla hafrannsóknir, til að afla þeirra upplýsinga sem okkur vantar til að vita um eðli vistkerfis sjávar, um eðli lífríkisins. Það er grundvallaratriði.

Við nefnum það í frumvarpi okkar í greinargerð að það er vandalaust að hleypa af stokkunum slíku tilraunaverkefni. Það hefur verið talað um þetta í mörg ár en ekkert gert í þessu. Það er að meira segja hægt að hafa rafrænar tengingar beint úr skipunum að gættum persónuupplýsingum og öðru slíku sem fljóta beint inn á vísindastofnanir, inn á Hafró, um hitastig, um svo margt annað. Þess vegna viljum við hleypa þessu verkefni af stokkunum, Sjómenn græða hafið, í samvinnu við sjómenn og útgerðir. Við viljum semja við fjölbreyttan hóp víðsvegar um landið, helst öll fiskiskip, um að sjómenn á þeim, skipstjórnarmenn, miðli af reynslu sinni í umgengni við hafið og varpi þannig betra ljósi á lífríkið og stöðu fiskstofna. Hluti af þessum verkefnum er nákvæm skráning afla úr tilteknum veiðarfærum á ákveðnum veiðistöðum, skráning á yfirborðs- og botnhita sjávar, á veiðistöð, söfnun sýna, sjó- og lífsýna úr sjávardýrum, þróun veiðarfæra og veiðitækni.

Ég hygg að það væri í góðu lagi að úthluta til þessa verkefnis sérstökum tilteknum aflaheimildum. Það er reyndar svo að í lögum um fiskveiðistjórn er rannsóknarafli utan kvóta. Við verðum að fara í þennan sjóð reynslu og þekkingar sjómanna og við verðum að nota hæfni þeirra til skráningar í þágu þess að byggja upp fiskstofna við landið. Hafrannsóknastofnun og aðrir sem standa í deilum oft við sjómenn — og ég hef sagt að það hefur myndast gjá þar — verða að átta sig á þessari staðreynd.

Í slíkum veiðum er líka hægt að hafa hreinar tilraunaveiðar til samanburðar við veiði hjá öðrum til að sjá og fara með allan afla í land. Með slíkum veiðum getur maður fengið fullkomið yfirlit yfir brottkast. Það undarlega er í vísindum sem byggt er á varðandi — vísindum Hafrannsóknastofnunar að ég hygg ef ég man rétt að brottkast sé 1,23% ... (Gripið fram í.) 1,23%. Það er eins og þeir hafi verið á sjó og talið alla fiskana, 1,23%. Maður spyr sig af hverju ekki séu fjórir aukastafir fyrst þetta er svona nákvæmt. Ég hef ekki fengið svo sem svör við því, 1,23%. Það er hald manna í Evrópubandalaginu eða í Evrópulöndum að brottkastið sé á bilinu 25 og jafnvel upp í 40% í vissum tegundum.

Við verðum að vita hvaða slóð við ætlum að ganga. Við verðum að sjá fram á veginn. Það getum við eingöngu með því að afla upplýsinga í gríðarlegum mæli. Að byggja á tveimur skipum í þeim efnum sem er þó aðeins vegna fjárskorts haldið á sjó — ég hygg að öðru skipinu sé haldið til rannsókna 200 daga á ári og hinu í um 180 daga. Mig minnir að þessar tölur séu réttar. Meira að segja þegar þessi mikla krísa blasir við ef ekki verður af loðnuveiðum þá liggja þessi skip bundin í höfn sem hefðu átt að vera með áhafnarskiptum og haldið úti allan sólarhringinn, rétt að koma í land til að skipta um áhöfn.

Það er líka hægt að koma á svæðisbundnum tilrauna- og rannsóknarstöðvum. Til er vísir að slíkum stöðvum um allt land og það eru í raun fjölmörg útgerðarfyrirtæki sem stunda rannsóknir. Ég nefni þar merkilega humarrannsókn sem stunduð er af Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum í samstarfi við Háskóla Íslands.

Það verður að sækja í vannýttan sjóð og reynslu og þekkingu sem hefur orðið til hjá þeim sem stunda fiskveiðar og -vinnslu. Þannig opnast möguleikar til að tengja saman fræðimennsku og reynslu á þekkingu sjómanna. Við sem stöndum að þessu frumvarpi sækjum okkur fyrirmynd í verndun, ræktun og nýtingu landsgæða, verkefnið Bændur græða landið sem umbylti uppgræðslu á Íslandi. Bændur standa fyrir gagnmerkustu uppbyggingu og ræktun á landi. Eftir að þessu verkefni var hleypt af stokkunum, þ.e. einstaklingurinn var látinn axla ábyrgð þá hefur okkur orðið verulega ágengt. Því skyldi okkur ekki verða verulega ágengt við að rækta hafið og byggja það upp. Að sama skapi og við kortleggjum afréttir og gróður því skyldum við ekki geta kortlagt hafsbotninn og lífríki sjávar þannig að við fáum þá þekkingu sem er grundvöllur þess að geta tekið réttar ákvarðanir. (Gripið fram í: Bóndinn á jörðina.) Það er algjörlega á hreinu að rétt eins og bændur eru bestu vörslumenn landsins þá eru sjómenn bestu vörslumenn hafsins og lífríkisins þar.