135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skipafriðunarsjóður.

236. mál
[18:55]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa fullum stuðningi við þessa þingsályktunartillögu um skipafriðunarsjóð. Skipasaga okkar sem fiskveiðiþjóðar er hluti af menningararfi okkar sem okkur ber að varðveita en því miður, eins og hér hefur komið fram í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, þá höfum við glatað stórum köflum úr þeirri menningarsögu. Ég tel með öllu óeðlilegt að það sé í raun undir fjárlaganefnd komið að veita framlög til uppbyggingar og varðveislu á einstökum skipum, þ.e. að viðkomandi aðilar þurfi að fara þá leið að leita til fjárlaganefndar til að fá afgreiðslu í slík verkefni. Að mínu mati er miklu eðlilegra að það sé ákveðinn sjóður, rétt eins og húsafriðunarsjóður, sem hægt sé að sækja í, verkefnið metið og þá sé hægt að fara í þau verkefni að gera upp þau mörgu skip sem enn bíða.

Margir bera þann draum í brjósti að gera upp gamla báta. Ef við förum hringinn í kringum landið sjáum við trébáta sem eru uppi á landi og bíða viðgerðar en það er mjög kostnaðarsamt að gera upp gömul skip sem hafa verið langan tíma á landi og því lengur sem þau bíða því meiri og erfiðari eru viðgerðir og varðveisla þannig að ég styð þessa tillögu alveg eindregið.

Ég vil fá að nota tækifærið og nefna hugmynd sem ég hef lagt fram áður í þingsályktunartillögu um að stofna samgönguminjasafn. Í mínum huga er þetta ekki minjasafn um bifreiðar eða ökutæki heldur minjasafn um hleðslur, vörður, kortlagning á reiðvegum eða gömlum akvegum, gömlum brúm, að halda við þeim menningararfi sem liggur í því handverki og verkþekkingu sem bjó hjá þjóðinni við gerð þessara samgönguminja, samgöngutækja, samgönguleiða og mannvirkja sem við erum því miður að glata hverju á fætur öðru. Við höfum verið að brjóta niður gamlar merkilegar brýr, við förum illa með gamlar veghleðslur og við höfum týnt niður gömlum vegleiðum og reiðleiðum. Með því að draga þetta fram getum við notað þetta sem hluta af uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu, rétt eins og skipin. Og varðandi skipin eru þau nógu mörg komin á áramótabrennurnar. Það er varla til sá trébátur á landi sem er ekki eyrnamerktur núna til varðveislu eða vonandi til varðveislu. Hinir eru farnir á bálið og ég legg áherslu á það að við björgum þeim sem eftir eru og förum í það markvisst með stofnun slíks sjóðs.