135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þessa máls hrósa hv. þingmönnum Bjarna Benediktssyni og Illuga Gunnarssyni fyrir góða grein í Morgunblaðinu sem vakið hefur verðskuldaða umræðu um efnahagsmál og efnahagsstefnu í landinu.

Ég er alveg sammála þeim þar sem þeir rekja mikilvægi þess að koma á auknu samráði um þróun mála í efnahagsmálum og auknar rannsóknir í efnahagsmálum í landinu. Ég held satt að segja að við þær aðstæður sem við búum við í dag finnum við sárlega fyrir því að okkur vantar sjálfstæða rannsóknarstofnun í efnahagsmálum í ætt við það sem Þjóðhagsstofnun var, sem var agavald bæði fyrir aðila vinnumarkaðarins, fyrir ríkisvald, fyrir sveitarfélög og fyrir alla aðila. Ég held að það sé mikilvægt að við horfum til þess að auka opna og fordómalausa umræðu um efnahagsmál á öllum þessum vettvangi. (Gripið fram í.)

Hins vegar vil ég gera annað atriði í grein þeirra góðu félaga að umtalsefni og það er hugmyndin um að víkja að einhverju leyti frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þessu stigi. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvernig það er til komið og hvernig tekist hefur til með efnahagsstjórnun undanfarinna ára. Ég held hins vegar að það sé stórhættulegt þegar á bjátar að skipta um hest í miðri á og það sé mikilvægt að við höldum sjó og stöndum við verðbólgumarkmiðið við þessar aðstæður. Á því hangir trúverðugleiki íslensks efnahagslífs og á því hangir líka lánshæfismat ríkisins. Ég held að það væri mjög varhugavert að fara að breyta um viðmið í þessu efni.

Það á að fjölga þeim stoðum sem trúverðugleiki íslensks efnahagslífs og fjármálalífs hvílir á. Við getum nefnt nýlega skýrslu Dresdner Kleinwort sem bendir á það, sem rétt er, að stefnumörkun um aðild að Evrópusambandinu yrði t.d. til þess fallin að styðja frekar við trúverðugleika íslensks fjármálalífs til lengri tíma litið. Ég held að við eigum ekki að fækka stoðunum sem trúverðugleiki (Forseti hringir.) okkar hvílir á heldur fjölga þeim.