135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ágætt framtak hjá þeim félögum Bjarna Benediktssyni og Illuga Gunnarssyni, hv. þingmönnum, að skrifa blaðagrein og vekja athygli á því ófremdarástandi í efnahagsmálum sem hagstjórnarmistök og óstjórn hafa komið okkur í. Það er líka myndarlegt hjá Morgunblaðinu að leggja miðopnuna undir. Það er að vísu óþarfi að láta eins og þetta sé í fyrsta skipti sem skrifað sé eða talað um þessi mál og hvað þá að staðan nú eigi að koma nokkrum manni á óvart.

Undanfarin þrjú þing hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutt hér á Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í efnahagsmálum til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar höfum við verið að leggja til sumt af því sama og hv. þm. Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson fjalla nú um eða leggja til. Einnig hefur sá sem hér stendur iðulega á undanförnum missirum hvatt til þess að Seðlabankinn yrði styrktur og gjaldeyrisvaraforðinn aukinn. Inn á það koma hv. þingmenn einnig í grein sinni.

Það verðmætasta við umrædda grein er að sjálfsögðu það að hún er til marks um að óbreyttir liðsmenn í stjórnarherbúðunum eru ekki ónæmir fyrir ástandinu og hafa hafist handa um að vekja forustumenn sína, forustumenn ríkisstjórnarinnar, af dvalanum. Það eru merkilegustu skilaboðin, það er merkilegasti tilgangur þessarar greinar.

Hvað varðar Íbúðalánasjóð held ég að menn ættu að kynna sér afstöðu Félags fasteignasala og eindreginn stuðning þeirra við Íbúðalánasjóð. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, það er af því að Íbúðalánasjóður heldur fasteignamarkaðnum gangandi þegar bankarnir eru hættir að lána, það er af því að húsbyggjendur og húskaupendur eiga í eitthvert hús að venda sem þeir ættu ekki annars. Ég segi nú bara: Guði sé lof fyrir Íbúðalánasjóð einmitt núna. Ætli fólkið á landsbyggðinni kunni ekki að meta það að geta fengið lán óháð búsetu sinni eða hvernig ætli mönnum gengi að draga peninga undan nöglum bankanna til íbúðakaupa eða nýbygginga (Forseti hringir.) í afskekktum landhéruðum eins og ástandið er þar um þessar mundir?