135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég held að það sé alltaf hollt að taka umræðu á Alþingi um Íbúðalánasjóð og starfsemi hans, Íbúðalánasjóð fólksins eins og formaður Framsóknarflokksins kallar þennan sjóð gjarnan. Ég tók eftir því að hv. málshefjandi lýsti þeirri skoðun sinni að hann væri á engan hátt sammála því að færa eigi verkefni frá Íbúðalánasjóði til bankanna og ég skildi hann ekki öðruvísi en svo að það væri ekki ástæða til að breyta hlutverki lánasjóðsins.

Það vita allir sem fylgjast með þessum málum að bankarnir, íslensku viðskiptabankarnir eru í ákveðinni varnarbaráttu þessa dagana. Það eru erfiðir tímar á bankamarkaði og við þær aðstæður tel ég að ástæða sé til að ræða stöðu Íbúðalánasjóðs, ekki síst með tilliti til þessara aðstæðna og aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Menn verða að horfast í augu við það að Íbúðalánasjóður er í samkeppni við viðskiptabankana, í samkeppni við einkaaðila og samkeppni ríkis og einkaaðila getur aldrei verið sanngjörn og það skiptir engu máli hvort það er á sviði verslunar, á fasteignalánamarkaði eða einhvers staðar annars staðar. Ég er ekki í neinum vafa um það að Framsóknarflokkurinn og málshefjandi vilji hlut íslenskra viðskiptabanka sem mestan en ef menn segja A verða þeir líka að segja B. Það þýðir að ef menn vilja að bönkunum vegni vel verða þeir að opna augun fyrir því að það sé hugsanlega nauðsynlegt að jafna samkeppnisstöðu bankanna gagnvart ríkisbankanum, Íbúðalánasjóði. Ég er ekki að segja að það eigi að leggja Íbúðalánasjóð niður en við eigum að opna augun fyrir því að það er eflaust ástæða til að draga úr hlutverki sjóðsins miðað við hvert það er í dag.