135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli halda að það hafi verið tilgangur greinar okkar að benda á þann efnahagslega vanda sem var til staðar eftir að flokkur hans fór úr ríkisstjórn. Það var ekki tilgangur greinarinnar og það var heldur ekki tilgangur hennar að vekja athygli á því að hér hafi verið einhver lausung í fjármálum ríkisins eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon virðist halda, í hagstjórninni. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á þeirri ógn sem stafar af alþjóðlegri lánsfjárkreppu og bitnar ekki einungis á okkur á Íslandi og bönkunum sem starfa hér heldur líka bönkum víða í Evrópu, bæði í Írlandi, Spáni og víðar, alvarleg vandamál, og að það sé ýmislegt sem við getum gert núna með samstilltu átaki þeirra sem starfa á markaðnum og í samstarfi við stjórnvöld til að bregðast við þessum vanda, skapa þessari atvinnugrein betri skilyrði til lengri tíma litið. Þetta er aðaltilgangur greinarinnar.

Varðandi önnur atriði sem hafa verið til umfjöllunar í dag eins og verðbólgumarkmiðið þá er það líka okkar ábending að auðvitað er verðbólgumarkmiðið gott og gilt og við höfum alltaf stutt það. Það er engin spurning og allt satt sem sagt hefur verið í dag um þann skaða sem verðbólgan getur valdið. En ef það er önnur ógn stærri en verðbólgan, fjármálakreppa sem getur leitt til stöðnunar í atvinnulífinu, gjaldþrota og meiri háttar lausafjárþurrðar í samfélaginu öllu og miklu meiri vandamála en verðbólgan ein og sér getur skapað, þá eigum við ekki að beita þeim vopnum sem Seðlabankinn hefur til að hemja verðbólguna ef hún framkallar hinn vandann sem er fjármálakreppa. Við erum að benda á þetta. Við erum ekki að tala um að hverfa frá verðbólgumarkmiðinu heldur að víkja því úr forgrunni fyrir hinu verkefninu sem er að forðast stærri hættu en verðbólgan er um þessar mundir þó að hún sé vissulega alvarlegt vandamál.