135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna sem hefur farið fram í dag en vil benda hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem tala um félagslegt hlutverk Íbúðalánsjóðs, líta á landsbyggðina sem félagslegt hlutverk, á að það er bara þannig að ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við í dag þá fengju íbúar á sumum svæðum landsbyggðarinnar ekki lán hjá bönkunum til þess að kaupa sér íbúð.

Einnig vil ég benda á það eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að það fóru 33 milljarðar út á markaðinn á haustdögum 2004. Í flestum þeim skuldabréfum sem þar voru gefin út eru endurskoðunarákvæði vaxta. Hvenær eiga þau að koma til framkvæmda? Þau eiga að koma til framkvæmda haustið 2009. 33 milljarðar koma til vaxtaákvörðunar til endurskoðunar þarnæsta haust. Og hvað gerist þá? Það verður fróðlegt að sjá hvernig umslagið lítur út þegar maður fer að taka upp lánagreiðsluseðilinn frá bönkunum.

Ég get alveg fullyrt það að bankarnir eru nú þegar farnir að mismuna landsbyggðinni versus höfuðborgarsvæðinu. Bara á almennum markaði. Þetta sagði mér forstjóri virts og stórs fyrirtækis á Akureyri. Því miður eru raddirnar að verða æ háværari úti á landsbyggðinni um að ríkisbankar eigi að koma aftur.