135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um útflutning á óunnum fiski. Ég spyr hversu mikið hafi verið flutt út af óunnum fiski árin 2005, 2006 og 2007 og hve stór hluti hafi verið fluttur út óvigtaður. Í öðru lagi hvort útflutningur hafi aukist frá haustdögum 2007 þegar útflutningsálag var fellt niður og í þriðja lagi hvort hæstv. ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að allur fiskafli sem ekki er unninn af handhöfum aflahlutdeildar fari á markað innan lands þannig að innlendir fiskflytjendur sitji við sama borð og erlendir og gefist ætíð kostur á að bjóða í hráefnið. Ef ekki, hvaða úrræði og ráðstafanir telur hæstv. ráðherra koma til greina til að bæta aðgengi innlendra fiskverkenda að hráefni en það hefur farið síversnandi og sérstaklega núna eftir niðurskurðinn í haust.

Við vinstri græn höfum margsinnis flutt þingsályktunartillögu um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hér á landi en útflutningur hefur aukist umtalsvert og hann hefur neikvæð áhrif á þjóðarbúið. Hráefnisskortur er viðvarandi vandamál, ekki síst hjá fyrirtækjum sem reka fiskvinnslu án útgerðar og þeir hafa slaka samkeppnisstöðu þegar þeir geta ekki boðið á móti erlendum kaupendum í þennan fisk.

Ég vek líka athygli á því að þessir fiskverkendur án kvóta hafa víða verið með sprotaframleiðslu og skapað nýja markaði og nú er staðan þannig að sögn þeirra að þessir markaðir kunni að tapast.

Ég vek líka athygli á því að þetta er auðvelt mál í rafrænum heimi þar sem uppboð fara fram í gegnum tölvur og gegnum netið þannig að það er ekkert vandamál að koma þessu uppboðskerfi á þannig að allir sitji við sama borð, hafi alltaf möguleika á að bjóða í fiskinn hvort sem þeir eru staddir á Íslandi eða erlendis. Það þjónar auðvitað hagsmunum Íslendinga best að sem mest af þeim fiski sem hér er veiddur komi til verkunar hér á landi.

Herra forseti. Nú þegar þorskaflamark hefur verið skert um þriðjung er þessi útflutningur mun alvarlegri en ella. Við erum í raun að flytja út fjöldann allan af ársverkum í fiskvinnslu, líklega hundruð ársverka og ég giska á að þau ársverk sem töpuðust eða jafnvel helming af þeim ársverkum sem töpuðust við niðurskurð þorskaflaheimilda mætti sækja með því að vinna þennan fisk hér á landi. Mér þætti vænt um að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því.