135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:19]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason hefur lagt fyrir mig þrjár spurningar varðandi útflutning á óunnum fiski en þær hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Hversu mikið var flutt út af óunnum fiski árin 2005, 2006 og 2007 og hver stór hluti þess afla var fluttur út óvigtaður?“

Svarið við þessari spurningu er: Heildarútflutningur óunnins botnfisksafla árið 2005 var 53.419 tonn, árið 2006 var hann 52.975 tonn og árið 2007 var hann 50.977 tonn. Hlutfall þess afla sem seldur var út óvigtaður á erlenda markaði var árið 2005 29.167 tonn eða 54,6%, árið 2006 var hann 31.484 tonn eða 59,4% og árið 2007 nam þessi útflutningur 33.286 tonnum eða 65,3%.

„2. Hefur útflutningur á óunnum fiski aukist frá haustdögum 2007 þegar útflutningsálag var fellt niður og ef svo er, hversu mikið?“

Á fyrstu fimm mánuðum fiskveiðiársins 2005–2006 var flutt út samtals 19.400 tonn af óunnum fiski. Þar af voru 9.841 tonn óvigtaður afli eða 50,7%. Á fiskveiðiárinu 2006–2007 nam útflutningur á óunnum fiski á fyrstu fimm mánuðum fiskveiðiársins samtals 17.105 tonnum. Þar af voru 10.055 tonn óvigtaður afli eða sem nemur 58,8%. Fyrstu fimm mánuði yfirstandandi fiskveiðiárs nemur útflutningur á óunnum fiski samtals 19.593 tonnum og þar af eru 13.550 tonn óvigtaður afli eða um 69,2%. Þannig hefur útflutningur á óunnum fiski aukist í heildina á haustdögum 2007 samanber fyrri ár, þ.e. árin á undan, um 2.288 tonn milli ára og þar munar langmest um útflutning á ýsu eða um 1.901 tonn en við vitum að ýsuaflinn hefur aukist allverulega á yfirstandandi fiskveiðiári miðað við fiskveiðiárið á undan og skýrir það að sjálfsögðu þennan aukna útflutning. Þorskútflutningurinn hefur aukist um 193 tonn en athyglisvert er að karfaútflutningurinn hefur minnkað um tæp 900 tonn og steinbítsútflutningur sem ævinlega er talsvert mikill á haustin hefur enn fremur minnkað um 150 tonn. Karfi minnkar um 900 tonn, steinbítur um 150 tonn.

Það er alveg ljóst mál að þegar við skoðum þetta með hliðsjón af breytingunni á útflutningsálaginu þá hefur það í sjálfu sér ekki haft önnur áhrif en þau að það eru bæði dæmi um aukningu í tveimur tegundum, einkum einni, ýsunni en síðan minnkun í karfa og steinbít.

„3. Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að allur fiskafli sem ekki er unninn af handhöfum aflahlutdeildar fari á markað innan lands þannig að innlendir fiskverkendur sitji við sama borð og erlendir fiskverkendur og gefist ætíð kostur á að bjóða í hráefnið? Ef ekki, hvaða aðrar ráðstafanir telur ráðherra þá koma til greina til að bæta aðgengi innlendra fiskverkenda að hráefni?“

Eins og ég hef stundum rakið áður úr þessum ræðustóli þá var það þannig að ég tók ákvörðun um að aflétta útflutningsálaginu snemma árs 2007. Þá tilkynnti ég jafnframt að sett yrði á laggirnar nefnd sem hóf störf sem hefði það að markmiði að auðvelda íslenskum fiskverkendum aðgang að þessu hráefni. Af ýmsum ástæðum sem oft hafa komið fram hefur vinna þessarar nefndar dregist en ég veit að á það er lögð áhersla af nefndarmönnum að ljúka störfum sem allra fyrst. Þeir hafa kynnt sér málið, þeir hafa rætt við hagsmunaaðila, bæði útflytjendur og fiskverkendur, bæði fiskverkendur sem ekki hafa kvóta og aðra. Þeir hafa kynnt sér málin með heimsóknum á erlenda fiskmarkaði, á innlenda fiskmarkaði, heimsótt þær verstöðvar þar sem hagsmunirnir eru mestir í þessu þannig að þeir hafa verið að reyna að kynna sér þessi mál frá öllum bæjardyrum.

Ég leit þannig á að þetta væru tvær fullgildar ákvarðanir. Annars vegar ákvörðun um að fella burtu útflutningsálagið og hins vegar að móta tillögur um það hvernig við gætum aukið og bætt aðgengi íslenskra fiskverkenda að þessum afla.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að fyrir hafa legið um alllangan tíma aðfinnslur frá samkeppnisyfirvöldum, Samkeppnisstofnun, sem telur og taldi á sínum tíma að útflutningsálagið færi í bága við samkeppnislöggjöfina í landinu og við hlutum auðvitað að taka tillit til þess auk þess sem þar hafði komið fram að rýrnun sem menn höfðu notað sem réttlætingu fyrir því að hafa þetta útflutningsálag var ekki til staðar í nándar nærri þeim mæli sem menn höfðu talið og taldist kannski í fáeinum prósentum, 1–2% eða þar um bil, og gat þess vegna ekki lengur réttlætt þetta. Ég vil líka vekja athygli á að við fengum samninga í tengslum við þessa ákvörðun sem fólu í sér lækkun á tollum á ýmsum unnum fiskafurðum, þ.e. karfa og humri, sem ætti meðfram öðru líka að bæta samkeppnisstöð fiskvinnslu okkar þó að í litlum mæli sé.