135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilmerkileg svör og gagnlegar upplýsingar og það er staðfest sem hefur verið haldið fram í mín eyru. Útflutningur hefur aukist verulega á ýsu og við erum að flytja út fleiri ársverk en við gerðum áður. Það sem er grafalvarlegt enn þá í þessu máli er að innlendir fiskverkendur sitja ekki við sama borð.

Ég vildi gera orð Gunnars Braga Guðmundssonar, formanns Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjanda, að mínum þar sem hann segir í 24 stundum 2. febrúar sl. Tilvitnun er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það eru auðvitað stórmerkileg tíðindi að á sama tíma og þorskkvótinn hefur verið skorinn niður um þrjátíu prósent og fiskvinnslur segja upp fólki um allt land vegna hráefnisskorts, séu menn að flytja út meira af þorski og ýsu nú en í fyrra.“

Síðar segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðan nú er verri en verstu spár gerðu ráð fyrir. Útlendingarnir geta nú keypt fisk án kvótaálags og hafa þeir gengið beint í ýsuna og aukið innflutning sinn á fiskinum um rúm þrjátíu prósent. Þetta er hráefnið sem við vonuðum að mundi vega upp kvótaskerðinguna í þorskinum. Við erum búnir að biðja um að fá tækifæri til að bjóða í þetta hráefni en höfum ekki fengið.“

Hann vekur síðan athygli á því að hinn útflutti afli rýrni á leiðinni út og verði minni kvóti þegar hann er kominn til erlendra framleiðenda og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sama magn af fiski er einfaldlega léttara þegar það er komið út, en það er sú þyngdartala sem er notuð til að draga frá kvóta.“

Þetta er auðvitað grafalvarlegt. Þarna sitja þeir sem verka fisk á Íslandi ekki við sama borð og þeir erlendu aðilar sem kaupa fisk og verka hann erlendis. Þeir fá meira fyrir sinn snúð.