135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns þá held ég að ljóst sé að ætlunin er að þeir fái almenna skrifstofuþjónustu með sama hætti og almennir starfsmenn þingsins, þ.e. sem getur lotið að símsvörun og einhverjum slíkum þáttum, ég held að það sé hugmyndin. Orðalagið í nefndarálitinu er tekið beint upp úr greinargerð með frumvarpinu og ég hygg að það sé ótvírætt að gert er ráð fyrir því að þessir tilteknu aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka njóti sömu stöðu og væru þeir starfsmenn þingsins.

Varðandi hina athugasemdina þá er skýrt að þarna er um að ræða sérstakt fyrirkomulag. Aðstoðarmenn þingmanna verða ekki opinberir starfsmenn og því þykir ekki eðlilegt að um þá gildi þau viðamiklu ákvæði sem er að finna í starfsmannalögunum um opinbera starfsmenn, bæði varðandi réttindi þeirra og skyldur. Þeir eru í ráðningarsambandi við þingmanninn og það samband er annars eðlis en samband ríkisstarfsmanns og ríkisins og þar eiga önnur rök við.

Ég teldi ekki eðlilegt að þær reglur giltu um ráðningu aðstoðarmanna þingmanna sem gilda almennt um ráðningu opinberra starfsmanna, t.d. varðandi auglýsingaskyldu og þess háttar, vegna þess að um persónulegan aðstoðarmann er að ræða. Það er líka ljóst að það væri sérstakt ef þær sérstöku reglur sem gilda til verndar opinberum starfsmönnum vegna starfa þeirra sem slíkir giltu um aðstoðarmenn þingmanna. Hér er sem sagt verið að undirstrika það að ekki er verið að ráða starfsmenn til ríkisins, þetta eru aðstoðarmenn viðkomandi þingmanna og vinnuveitandi þeirra er þingmaðurinn þó að þingið sem slíkt greiði launin.