135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:52]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar sem ég stend að.

Ég vil fyrst vekja aðeins athygli á forsögu þessa máls. Það var afráðið við breytingu á þingsköpum fyrir jól, sem var í einhverjum undirbúningi nokkrum mánuðum á undan, að koma þessu kerfi á. Þetta var samþykkt 14. desember en nú er komið fram í endaðan febrúar. Engu að síður ber þetta frumvarp að með mjög skömmum fyrirvara, ótrúlega skömmum fyrirvara. Maður spyr sjálfan sig að því: Til hvers var tíminn notaður frá jólahléi þar til þetta frumvarp er lagt fram til 1. umr.? Það gafst mjög knappur tími í þingflokki okkar að ræða þetta mál, það var kynnt seint og um síðir. Það er síðan rekið í gegnum allsherjarnefnd af miklum hraða, á þremur fundum, tveimur sama daginn.

Nú er frumvarpið tekið fyrir sem forgangsmál á Alþingi og mér er ætlað að standa hér og flytja ræðu um málið. Ég fékk að vita það í gær, ef ég man rétt, að málið yrði á dagskrá. Ég var í þingstörfum í allan gærdag og málflutningi hér úr ræðustóli, á fundum í gærkvöldi og þingnefndarfundum frá klukkan hálfníu í morgun til klukkan tólf. Síðan mælti ég fyrir fyrirspurn rétt áðan.

Það er auðvitað ekki ásættanlegt að standa frammi fyrir því að keyra þetta mál í gegn með þeim hraða sem hér er gert. Ég lagði til í allsherjarnefnd að málinu yrði frestað, að við tækjum okkur tíma í næstu viku og það gerði ekkert til þótt gildistakan frestaðist til 15. mars. Það er mér að meinalausu sem þingmanni Suðurkjördæmis. Jafnvel þó að þingið samþykkti frumvarpið í næstu viku þá er ekkert því til fyrirstöðu að það taki gildi 1. mars vegna þess að launin eru greidd eftir á og þar fram eftir götunum.

Síðan vek ég athygli á því að minnihlutaáliti mínu var dreift hér skömmu fyrir umræðu um þetta mál. Allt eru þetta vinnubrögð sem ég hélt að hefðu átt að heyra sögunni til þegar við samþykktum ný þingsköp fyrir jól. Sú er ekki raunin, því miður. Því miður segi ég því að það veldur mér vonbrigðum að þurfa að standa hér og flytja framsögu 1. minni hlutans og geta ekki undirbúið mig í þaula. Og hvað var þá til ráða? Jú, það var til ráða að dreifa nefndaráliti og hafa skriflegan málflutning uppi. Bæði knappur ræðutími á þingi og þessi skammi fyrirvari gerir það að verkum að maður leggst í skriflegan málflutning og hann er hér í nefndarálitinu. Því fylgja sem fylgiskjöl nefndarálit minni hluta með þingskapafrumvarpinu sem þingskapameirihlutinn samþykkti fyrir jól.

Mér er til efs að þingmönnum hér í salnum hafi gefist tóm — ég veit það bara í mínum þingflokki — til að kynna sér álit þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þess að andmæla því eða samþykkja það eða ræða það málefnalega af einhverju því viti sem yfirlestur skjala gefur manni tækifæri til. Ég gagnrýni þetta og vona að þetta endurtaki sig ekki, að maður standi frammi fyrir því deginum áður að vera kastað hér í einhverja djúpa laug óundirbúinn. Það er ekki stíll neinna sem vilja ástunda vönduð vinnubrögð að koma ólesinn í tíma. Það er bara ekki þannig, hvar sem er í þjóðlífinu.

Ég tel sem sagt undirbúning frumvarpsins alls ekki vandaðan og það sem meira er, skoðanir þingmanna eru afar skiptar um það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu hvað sem líður forsögu málsins og því samkomulagi sem þeir þingflokkar sem stóðu að breyttum þingsköpum komust að og rakið er í greinargerð með frumvarpinu. Efni frumvarpsins lýtur að samkomulagi aðstandenda nýrra laga um þingsköp Alþingis sem sett voru fyrir jól um að þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna þriggja og formönnum stjórnmálaflokkanna verði heimilt að ráða sér aðstoðarmenn. Eins og ég sagði áðan fjallaði allsherjarnefnd um málið á tveimur fundum sama daginn, öðrum á kvöldfundi, og svo aftur í þessari viku og á þeim fundum allsherjarnefndar vöknuðu ótrúlega margar spurningar. Þær voru fleiri í röðum stjórnarþingmanna en stjórnarandstæðinga. Það urðu heitar umræður í nefndinni um þetta mál og það var alls ekki að ófyrirsynju sem nefndarmenn í allsherjarnefnd veltu þessu máli fyrir sér. Það var vegna þess að það er ekki hugsað til enda. Og ég spyr sjálfan mig, vegna þess að nú hangir það á spýtunni að afleiðingar þess að efna loforðið frá 1999 við stækkun kjördæmanna að veita landsbyggðarþingmönnum aðstoðarmenn, sem er eins konar skrifstofa þeirra úti á landi vegna þess að landsbyggðarþingmenn njóta minni aðstoðar skrifstofu stjórnmálaflokka sem eru í Reykjavík, vegna þess að þeir eru svo mikið á ferðinni. Það voru brýn rök fyrir því. En nú á það að gerast, og það eru nánast vilyrði uppi um það, að ráðnir verði aðstoðarmenn fyrir þingmenn höfuðborgarsvæðisins. Og spyrji þingmenn sig þá að því: Er það rétt forgangsröðun? Er það það sem við viljum? Þýðir það að við munum síðar fá það sem við viljum helst, eða a.m.k. sá sem hér stendur, miklu betri þjónustu innan þingsins, eflingu nefndastarfsins og þar fram eftir götunum? Mun því þeim brýnu úrbótum seinkað og svo mörgu öðru? (Gripið fram í.)

Þegar maður heyrir svo að við skulum láta þetta þróast og sjá svo til þá er ekki verið að skoða endirinn í upphafi máls. Auðvitað átti þetta að fara inn í heildarpakka á störfum og starfsfyrirkomulagi þingsins og kjörum og umönnun um þingmennina og skoða þetta út frá öllum pakkanum. Ég hefði helst kosið það, herra forseti, að gerð yrði úttekt á þinginu, allsherjarúttekt á þinginu — það var gert í írska þinginu, þar var gerð allsherjarúttekt á þinginu — um það sem betur mætti fara í heild sinni en ekki að pikka út einn lið og skoða hann heldur skoða þetta heildstætt séð.

Það var fullkomlega ljóst að fulltrúar í allsherjarnefnd allir, held ég megi segja, höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa og skoðanaskipti. Það var nánast málamiðlun um það að koma með þetta frumvarp óbreytt inn. Enda lá þá fyrir að ef taka ætti tillit til margra mjög skynsamlegra athugasemda sem komu fram í nefndinni þá hefði ekki orðið af flutningi þessa frumvarps og málið hefði frestast fram á vor eða fram á næsta þing. Meiri hluti allsherjarnefndar stóð frammi fyrir þeim valkosti og hv. formaður nefndarinnar benti skilmerkilega á þetta og rökstuddi.

En það er algjörlega ljóst af umræðum í allsherjarnefnd að þetta frumvarp kann að hafa afleiðingar sem ekki var stefnt að á upphafsstigum, málið var ekki hugsað til enda. Það er óþolandi eins og ég segi, að láta málið þróast og sjá svo til. Þannig vinnur maður ekki.

Ef ég nefni einhver dæmi þá er gert ráð fyrir því að þingmenn landsbyggðarkjördæma geti ráðið sér aðstoðarmenn í 33% starfshlutfall. Það er illframkvæmanlegt. Það er hreinlega illframkvæmanlegt að ráða í 33% starfshlutfall. Ég spurði hv. skrifstofustjóra Alþingis sem kom fyrir allsherjarnefnd að þessu. Þá komu þá svör að það mætti hugsanlega dreifa vinnuálagi. Jú gott og blessað, meira að gera í þessari viku en næstu. En ég spurði að því: Get ég þá látið aðstoðarmann minn vera í fríi í júní, júlí og ágúst og í jólamánuðinum þegar þing er ekki að störfum, því þá get ég auðveldlega verið í kjördæminu og sinnt mínum kjósendum? Það komu ekki svör við því. Ég fékk svona á tilfinninguna að menn mundu sjá í gegnum fingur sér. Ég vil hins vegar hafa stöðu mína gagnvart þessum reglum alveg fullkomlega skýrar svo ég liggi ekki undir gagnrýni fyrir að gera einhverja vitleysu. Ég vil standa með báða fætur á jörðinni í þessu máli.

Það er algjörlega óskilgreint í frumvarpinu í hverju hlutverk þessara aðstoðarmanna er fólgið. Það er undir hverjum og einum þingmanni komið. Það opnar fyrir ákvarðanir sem kunna að orka tvímælis eftir á, svo ég segi ekki meira. Það sem er mesti fleygurinn í mínu brjósti varðandi þetta er að aðstoðarmennirnir skuli vera ráðnir á einstaklingsgrundvelli þingmannsins. Ég starfa fyrir stjórnmálaflokk til að vinna að hugsjónum þess flokks. Þess vegna á minn stjórnmálaflokkur að segja til um það hvert verkefni aðstoðarmannsins er en ekki að ég beri persónulega ábyrgð á honum. Þetta átti að fara í gegnum þingflokkana eða stjórnmálaflokkana og það átti að þá ráða þannig. Auðvitað hefði hver flokkur sett sér reglu um það hvernig aðstoðarmaðurinn starfaði fyrir landsbyggðina.

Ég ætla að nefna tvö dæmi um það hvernig þetta getur snúist í andhverfu sína og snúist í eitthvað sem samt er ekki fjarstæða. Aðstoðarmaður ráðherra er gjarnan í uppeldisstöð stjórnmála. Aðstoðarmaður þingmanna er að læra að verða pólitíkus. Er það ekki þannig þegar menn hafa áhuga á að sinna slíkum störfum? Hvað gerist ef aðstoðarmaður alþingismanns fer í prófkjör gegn honum? (Gripið fram í: Hann verður rekinn.) Hann verður rekinn en hann verður þrjá mánuði á launum á uppsagnarfresti til að vinna gegn húsbónda sínum.

Hvað gerist ef aðstoðarmaður fer gegn þingmanni sínum og húsbónda í baráttu gegn honum í prófkjöri? (Gripið fram í.) Hafa menn hugsað þetta til enda? Hvað gerist í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar þingmennirnir hafa þau forréttindi að vera með aðstoðarmenn til að vinna fyrir sig í prófkjöri en aðrir ekki? Er það ásættanlegt? Auðvitað ekki. Það er auðvitað ekki ásættanlegt. Skýrar reglur um störf aðstoðarmannsins mundu koma í veg fyrir svona. Þetta óljósa kerfi opnar fyrir geðþótta. Það nær ekkert lengra en það. Því miður, segi ég aftur, því miður. Allt eru þetta spurningar og margar fleiri sem komu upp í störfum nefndarinnar sem við höfum ekki svarað af því það á að keyra þetta frumvarp í gegn á últra-hraða.

Herra forseti. Eigum við ekki að staldra við? Er ekki betra að hafa kerfið gott og ég fái minn aðstoðarmann í haust eða einhvern tímann seinna en að fara fram með þetta? Ég ítreka það að þetta átti að verða flokksráðning en ekki einstaklingsbundin ráðning og ég spyr líka: Hafa menn hugsað það til enda hver er ábyrgð húsbóndans annars vegar, alþingismannsins, og hver er ábyrgð launagreiðandans, Alþingis? Hvernig fer það saman? Hvernig virkar hún saman? Hvað ef ég segi starfsmanninum upp, aðstoðarmanninum upp með ólögmætum hætti? Hverjum baka ég þá skaðabótaábyrgð? Alþingi? Er það ekki greiðandi að laununum? Ég hef aldrei séð svona vinnuréttarsamband og þó hef ég starfað sem lögmaður í vinnurétti í hartnær þrjá áratugi.

Ég hefði viljað sjá heildarúttekt á störfum þingsins, hvaða hagsmunir brenna mest á okkur þingmönnum í starfsumhverfi okkar. Því ég veit að allir þingmenn hér í salnum og þingmenn sem eru á þingi núna og hafa verið, vilja vinna þinginu sem best. Þeir vilja hafa reglurnar og umgjörðina sem besta og vilja geta unnið vandaða og markvissa vinnu.

Það gerðist í þessari umfjöllun að það var auðvitað ekkert leitað umsagna. Það var ekki leitað umsagna frá starfsmannafélagi Alþingis. Ég ætla ekki að spá neinu um það en ráðning þessara aðstoðarmanna getur skapað núning milli þeirra og starfsmanna þingsins. Bara ef við horfum á launakjörin sem fólk ber ævinlega saman. Laun aðstoðarmanna formanna eru þingfararkaup, 541 þús. kr. Þeir bera hins vegar miklu minni ábyrgð en við þingmenn sem þurfum að sækja nefndarstörf, standa í ræðustól, undirbúa okkur, fyrir utan að bera ábyrgðina gagnvart aðstoðarmanninum. Það skapast núningur þar um.

Og hvað heyri ég svo í nefndarstörfunum? Jú. Það varð að miða við að hafa þetta svo hátt, hátt eða lágt, það er afstætt vegna þess að aðstoðarmenn ráðherra eru með 700–800 þús. kr. á mánuði. Ég kann ekki við svona launakjör. Ég kann ekki við það að ákvarða launakjör upp á 541 þús. kr. eða hvað það nú er, þegar við erum að greiða fólki og semja um kjör fyrir launafólk í landinu sem er undir framfærslumörkum. Við eigum að vera fyrirmynd í þjóðfélaginu. (KHG: Hver er þá tillaga þín?)

Tillaga mín, hv. þingmaður, er sú að málið verði skoðað ofan í kjölinn og það verði leitað samstöðu um þetta. Ekki að maður fái þetta upp í hendurnar og hafi ekkert um málið að segja. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég vildi gjarnan ræða í þaula og fara yfir. (KHG: En kaup aðstoðarmanna, hver er tillaga þín?)

Með hliðsjón af því sem ég hef rakið hér þá tel ég að frumvarpið samrýmist ekki þeim reglum sem þingið og stjórnsýslan hefur sett sér um vandaða lagasmíð. Það er nýlega búið að gefa út handbók um það hvernig eigi að standa að smíð lagafrumvarpa. Skoðum það nánar. Tilgangur handbókarinnar er að safna á einn stað helstu viðmiðunum um vandaða frumvarpssmíð og vera leiðbeinandi um atriði sem þörf er á til aukinnar samræmingar.

Þetta er viðmiðunarhandrit sem á að tryggja vandaða frumvarpsgerð. Síðan eru sett upp allmörg atriði um það hvernig maður stendur að vandaðri frumvarpssmíð og ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það. En fyrsta atriðið er: Var ný lagasetning nauðsynleg? Svo eru ákveðnar reglur um það hvernig eigi að semja frumvörp. Það er ákveðinn kafli um það hvaða samráð eigi að hafa og samtal áður en ákveðið er að semja frumvarpið og meðan á frumvarpssmíðinni stendur. Það á líka að vera pólitískt samráð. Og það á að vera samráð við hagsmunaaðila og almenning. Allt er þetta tiltekið þarna. Við samningu góðs lagafrumvarps á síðan að meta áhrif þess verði frumvarpið að lögum. Bæði almennt mat á áhrifunum og afleiðingunum fyrir hagsmunaaðila og svo með samantekt og fleiru.

Ég fullyrði að sú frumvarpssmíð sem hér liggur fyrir, rétt eins og þingskapafrumvarpið fyrir jól, fullnægi ekki þessum reglum. Og það er ekki gott að Alþingi sem á að vera í fararbroddi skuli standa þannig að. Það verður bara að segjast eins og er.

Ég ætla að nefna eitt varðandi samskipti aðstoðarmanna við starfsfólk þingsins. Ég hef verið ákaflega ánægður með það fyrirkomulag að ritari þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ekki pólitískt skipaður vegna þess að hann á snurðulaus tengsl við allt starfsfólk þingsins og er einn af starfsfólki þingsins. Þegar kemur pólitískur aðstoðarmaður þá kemur upp ákveðinn veggur. Menn eru ekki í sama hópi. Menn eru ekki í sama liði. Það getur orðið þarna núningur sem ég hef áhyggjur af eða vil nefna hér.

Ég vil svo segja það að þessi hugmynd um aðstoðarmenn, og ég hef vikið að því áður, hefur raunar ekkert með breytingu á þingsköpum að gera heldur er hún runnin upp frá kjördæmabreytingunni 1999. Þá var gefið loforð um að styrkja þingmenn í gríðarlega stórum kjördæmum. Og ég hygg eftir að ég hlustaði á umræðu í allsherjarnefnd um þann mismun að vera þingmaður á landsbyggðinni eða í Reykjavík, sem ég hef hvort tveggja reynt, reyndar sem varaþingmaður í fyrra skiptið, að það er betra um að tala en í að komast.

Ég verð bara að segja það að ég fann fyrir einhverri, ég vil ekki segja vanþekkingu en skilningsleysi á störfum landsbyggðarþingmanna og það er eins og þingmenn höfuðborgarsvæðisins átti sig ekki á því hvað þar er að gerast. Þörfin á aðstoðarmönnum er mun brýnni vegna þess. Aðstoðarmaðurinn er skrifstofa þingmanns dreifbýliskjördæmis. Að fara fimm tíma keyrslu á fund í Hornafirði meðan það eru 20 mínútur að fara ofan úr Breiðholti, það að landsbyggðarþingmaður þurfi að halda fundi í öllum þéttbýlisstöðum kjördæmisins meðan hægt er að komast af með einn í Reykjavík norður, um málefni, það er svo margt sem réttlætir aðstoðarmenn landsbyggðarkjördæma umfram það sem þingmenn í Reykjavík og í kraganum eiga við að glíma. Ég geri þó þar með alls ekki lítið úr störfum þingmanna í Reykjavík og ég geri mér grein fyrir því að þeir þurfa að hafa alla umgjörð sem allra besta.

Aðstoðarmaðurinn átti að vera tengiliður milli kjósenda og íbúa kjördæmanna og þingmannanna sem auðveldaði þeim að rækta starf sitt. Ég veit að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þekkir þetta út og suður og getur rökstutt þetta miklu betur en ég sem sem hef ekki þessa reynslu nema frá vordögum 2007 af starfi sem þingmaður Suðurkjördæmis.

Þetta frumvarp er flutt af fulltrúum forsætisnefndar að fulltrúum vinstri grænna undanskildum. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til samkomulags sem gert var við aðdraganda setningu laga 161/2007, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem samþykkt voru í desember 2007. Ég vil taka því fram og halda því til haga að Vinstri hreyfingin – grænt framboð átti ekki aðild að umræddu frumvarpi og á ekki aðild að þessu meirihlutafrumvarpi sem hér liggur fyrir og mun skila auðu þegar til atkvæðagreiðslu kemur.

Ég verð svo að segja það enn fremur sem ég hygg að flestir geti samþykkt að þjóðþing Íslendinga er veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og staða þess hefur fremur veikst, löggjafarvaldsins gegn framkvæmdarvaldinu, en hitt undanfarin ár. Minni hlutinn telur mikilvægt að styrkja stöðu þingsins einkum hvað varðar nefndastarf og þátttöku stjórnarandstöðu í löggjafarstarfinu. Hér er ekki verið að gera það með heildstæðum og markvissum hætti.

Ég nefni bara sem dæmi um hvað stjórnarandstaðan er veik eða staða þingmanna er veik og ekki bara stjórnarandstöðuþingmanna heldur stjórnarþingmanna en það er sú staðreynd að þingmálamálum er ýtt til hliðar fyrir stjórnarfrumvörpum. Þau sofna í nefndum. Þau fá ekki umræðu og atkvæðagreiðslu hér í þingsal. (Gripið fram í.)

Almennt séð, hv. þingmaður, almennt séð er það svo, og ég get nefnt það að í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd bíða fjögur þingmannafrumvörp, eitt frá Sjálfstæðisflokki, eitt frá frjálslyndum, eitt frá okkur vinstri grænum og eitt sameiginlegt frumvarp þar sem 1. flutningsmaður er hv. varaþingmaður Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Geitafrumvarpið.

Minni hlutinn telur hlutverk stjórnarandstöðu og hvers og eins þingmanns vera að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá og koma þeim út í samfélagið. Réttindi stjórnarandstöðu og ákvæði þingskapalaga verða að vera virk sem tæki til að tryggja lýðræðisleg skoðanaskipti og umræður og síðast en ekki síst vönduð vinnubrögð og vandaða lagasetningu. Sú hefur því ekki miður orðið raunin.

Mér er það hjartans mál sérstaklega að nefndastarfið verði eflt. Mér er það hjartans mál að þingmannafrumvörp fái sömu afgreiðslu og jafnvel á undan stjórnarfrumvörpum. Mér líkar ekki við það að vera „lögafgreiðslumaður“. Ég vil taka virkan þátt í gerð og undirbúningi löggjafar. Það er mitt hlutverk. Ég var kosinn til þess.

Ég vil svo ítreka það að frumvarpið og þær reglur sem settar verða og hafa verið kynntar þingmönnum eru ekki hugsaðar til enda. Þær eru ekki hugsaðar heildstætt og ég hef efasemdir um að þær leiði til þess sem við viljum öll stefna að, að vandaðri meðferð mála hér innan þingsins sem var fyrir mér forgangsatriði.

Ég leyfi mér svo að endingu að vísa í ítarlegt nefndarálit og fylgiskjöl sem því fylgja. Ég er þeirrar skoðunar og ítreka það að rétt sé að hugsa þetta mál upp á nýtt og fresta afgreiðslu málsins milli 2. og 3. umr. Taka það til gagngerrar skoðunar sérstaklega í ljósi þess núnings sem kom upp í allsherjarnefnd milli landsbyggðarþingmanna og þingmanna hér á suðvesturhorninu sem var augljós og birtist kannski best í 1. umr. með þeim misvísandi skoðunum sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Það var kraftbirting þessara mismunandi skoðana. Og mismunandi afstaða þessara hv. þingmanna í ræðum endurspeglaðist að nokkru leyti í störfum allsherjarnefndar.

Ég vil líka vegna þess að ég nefndi hv. þm. Jón Magnússon geta þess að frá honum komu ábendingar um það að frumvarpið kynni að brjóta í bága við jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar. Ég deili ekki þeirri skoðun vegna sérstöðu starfs landsbyggðarþingmanna. En þegar kemur ábending frá hv. þm. Jóni Magnússyni sem er auk þess hæstaréttarlögmaður þá hefði auðvitað þurft að skoða það mál í kjölinn. Kalla til sérfræðinga í stjórnskipunar- og stjórnarfarsrétti og spyrja þá álits áður en við í allsherjarnefnd gerðumst svo djörf að afgreiða málið frá okkur til 2. umr. En það kann að vera að það gefist tóm til þess fyrir 3. umr. Ég vona að svo verði. En þetta vildi ég sagt hafa um þetta mál. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboð getum ekki staðið að afgreiðslu þessa máls og munum sitja hjá.