135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:22]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég stend við þau orð mín að þetta hafi verið keyrt í gegn á miklum hraða. Það var tilkynnt í gær að málið yrði á dagskrá í dag. Nefndaráliti mínu var dreift hér rétt fyrir þessa umræðu. Ekki tókst að ræða málið í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þ.e. þá þróun sem hefur orðið, þær breytingar sem frumvarpið tók í meðförum nefndarinnar og þá áherslu sem þar kom fram að allir þingmenn, ekki bara þingmenn dreifbýlisins, fengju aðstoðarmann og þau fyrirheit sem þar eru gefin. Þá var eiginlega búið að snúa ofan af öllu og það hefur ekki gefist tóm til að íhuga þetta í botninn og það hefur eiginlega ekki gefist heldur tóm til að skoða hvort einhverjir aðrir hlutir séu brýnni í þessu samhengi. Ég sá ekki þessar reglur eða frumvarp. Ætli það sé vika, tíu dagar síðan eða hálfur mánuður síðan, eitthvað svoleiðis.

Ég verð líka að segja það, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að þetta er mál sem á að vera uppi á yfirborðinu og á að þola gegnsæja umræðu og átti að fara í gegnum flokkana áður en hinar endanlegu reglur voru lagðar fram. Maður stóð að mörgu leyti frammi fyrir gerðum hlut. Ég vil líka minna á að þingskapafrumvarpið á sínum tíma var sett fram sem trúnaðarmál. Það sá ég líka með skömmum fyrirvara. Ég ætla ekki að endurtaka ræður mína hér fyrir jól en ég vísa í þær. Þær eru finnanlegar á netinu þar sem ég gerði athugasemdir hér að lútandi.