135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

fangaflug Bandaríkjamanna.

[10:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ríkissjónvarpið sýndi síðastliðið mánudagskvöld mynd danska sjónvarpsins um tengsl bandarísku leyniþjónustunnar CIA og Danmerkur eða dansks yfirráðasvæðis hvað varðaði hið ólöglega fangaflug. Sýning myndarinnar á sínum tíma í Danmörku olli miklu umróti ekki síst í grænlenskum stjórnmálum og reyndar dönskum og ríkisstjórn Danmerkur með Per Stig Møller utanríkisráðherra í broddi fylkingar var sökuð um að hafa logið bæði að grænlensku þjóðinni og danska þinginu. Þeir sem myndina sáu hafa ekki komist hjá því að taka eftir því að Ísland kom þar verulega við sögu og talsvert af þeim fangaflugum sem rannsóknarvinna danska sjónvarpsins beindist að að rekja og liggja undir grun um að hafa verið raunveruleg fangaflug komu við á Íslandi.

Myndin sýndi líka að það er hægt að rannsaka þessa hluti og það er fullyrðing sem ekki stenst að ekkert sé hægt að grafa í fortíðinni í þessum efnum eins og því miður var kannski meginniðurstaða hæstv. utanríkisráðherra Íslendinga þegar hún á Alþingi svaraði fyrirspurn minni 21. nóvember sl. og vitnaði þar í skýrslu starfshóps sem starfað hafði á hennar vegum, en í því svari ráðherrans segir, með leyfi forseta:

„Í þeirri vinnu [þ.e. vinnu starfshópsins] var ekki ætlunin að staðfesta eða kanna frekar hvort um ólögmæta fangaflutninga um íslenskt yfirráðasvæði hafi verið að ræða, einfaldlega vegna þess að ef ólögmætur flutningur fanga hefur átt sér stað er vart mögulegt að sannreyna slíkt eftir á.“

Ég tel að myndin hafi sýnt að svo er ekki. Það er hægt að rannsaka þessa hluti með ýmsum hætti og ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Telur ekki hæstv. ráðherra, m.a. í ljósi upplýsinga sem fram komu í myndinni, að ástæða sé til að fara yfir þessa hluti á Íslandi á nýjan leik og fylgja fordæmi Svía, Þjóðverja og fleiri þjóða og setja (Forseti hringir.) raunverulega óháða rannsókn í gang í þessu máli?