135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

fangaflug Bandaríkjamanna.

[10:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart ef danskir þingmenn vita ekki hvað hér var gert því að það kemur alveg skýrt fram í seinni hluta þessarar myndar og þeir blaðamenn sem gerðu þessa þætti vissu alveg nákvæmlega hvað hér hafði verið gert, að hér hafði verið tekinn saman listi yfir öll þau flug sem hingað höfðu komið og hugsanlega hefðu verið notuð fyrir meint fangaflug. Ég segi hugsanlega vegna þess að þau flugvélanúmer sem þarna er um að ræða geta auðvitað verið hér á vegum annarra aðila og í öðrum tilgangi en þessum. Eins og ég sagði, ef við fáum einhverjar skýrar vísbendingar um það að hér hafi verið fangaflug á ferðinni, að íslenskir flugvellir hafi verið notaðir í ólögmætum tilgangi þá er auðvitað sjálfsagt að skoða þau mál en við höfum ekki enn fengið neinar slíkar vísbendingar og meðan svo er tel ég dálítið viðurhlutamikið að fara ofan í öll þau lendingarnúmer sem þarna er um að ræða á öllu þessu árabili.