135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

veiðar í flottroll.

[10:46]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé hægt að segja að það hafi orðið sérstakar tafir á viðbrögðum okkar þegar okkur hefur verið bent á að skynsamlegt geti verið að takmarka flottrollsveiðar. Strax og þessar tillögur lágu fyrir á haustdögum 2005 var farið yfir þær af hálfu okkar í sjávarútvegsráðuneytinu og ég tók um það ákvörðun strax í ársbyrjun 2006 að takmarka flottrollsveiðar.

Það er hins vegar ekki óumdeilt mál. Við vitum alveg að skipstjórnarmenn eru alls ekkert sammála um þetta. Engu að síður tók ég þessa ákvörðun í ljósi þeirra ábendinga sem þá lágu fyrir.

Það eru auðvitað ekki bara áhrif flottrollsins sem geta skýrt þá stöðu sem við erum með í loðnunni. Við vitum að orðið hafa miklar breytingar á hitafari í sjónum. Það þarf ekki annað en að skoða gögn sem liggja fyrir frá Hafrannsóknastofnun, t.d. um hitastig á svokölluðu Siglunessniði, til þess að átta sig á því að orðið hafa miklar umhverfisbreytingar sem hafa örugglega haft áhrif á göngumynstur loðnunnar. Ég veit að hv. þingmaður, sem er þaulvanur sjósóknari og skipstjórnarmaður, þekkir það að loðnan er kaldsjávarfiskur og forðast þennan hlýja sjó og það hefur auðvitað haft áhrif á göngumynstur loðnunnar.