135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

Sundabraut.

[10:56]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi Sundabrautina er ánægjulegt að það mál komi enn einu sinni hér til umræðu og það verður ábyggilega eitthvað til umræðu á næstu vikum. Við vitum að Sundabraut hefur verið lengi á umræðustigi og hönnunarstigi, eins og hv. þingmaður talaði um, og hann þekkir það auðvitað líka mjög vel sem fyrrverandi borgarfulltrúi.

Hann þekkir það væntanlega líka að beiðni kom frá Reykjavíkurborg um að kanna Sundagöng en eins og þáverandi — eða einhver af toppum borgarstjórnar, Björn Ingi Hrafnsson, sagði fyrir borgarstjórnarkosningar að þetta mundi auðvitað tefja málið. Það var þó gert og unnin var ítarleg og góð skýrsla sem skilað var í samgönguráðuneytið til okkar 10. eða 13. desember. Síðan kom jólahaldið og ég ákvað að njóta jólanna í rólegheitum án þess að taka ákvörðun og leyfði mér þann munað að lesa málið vel yfir og taka það með jólakortunum.

En gamanlaust þá er bara málið í fínum farvegi. Það er m.a. í farvegi umhverfismats sem er lögbundin aðgerð. Þeirrar niðurstöðu er vonandi að vænta um mitt sumar ef engar deilur verða um þetta né miklar athugasemdir. Eins og talað er verður það væntanlega ekki þannig að þegar það liggur fyrir geta menn farið að stíga næstu skref.

Varðandi það að samgönguráðherra taki afstöðu þá er hv. þingmanni vel kunnugt um að til þess gæti komið að samgönguráðherra þurfi að úrskurða í málinu, alveg eins og hann gæti þurft að úrskurða um Hornafjarðarfljót eða aðrar leiðir. Það hefur nánast þurft að gera í tveimur eða þremur tilvikum hér á undangengnum árum.

Þess vegna má samgönguráðherra ekki vera búinn að taka opinbera afstöðu með eða móti annarri hvorri leiðinni vegna þess að hann má ekki gera sig vanhæfan til að úrskurða. Þetta er bara skrifað inn í vegalög sem ég er viss um að hv. þingmaður þekkir sem mikill áhugamaður um samgöngur eins og ég. Ég var aðvaraður um þetta strax og ég passa mig á því, virðulegi forseti.