135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

Sundabraut.

[10:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt ég svari ekki hv. þingmanni um það hvaða leið ég telji æskilegast að fara er ekki þar með sagt að ég hafi ekki skoðun á málinu. Ég læt hana bara ekki uppi.

En ég minni á að hv. þingmenn Vinstri grænna samþykktu m.a. ný vegalög á síðasta þingi sem við erum að vinna eftir þótt það hafi ekki verið nýmæli með hugsanlegt úrskurðarvald samgönguráðherra ef til deilna kemur milli sveitarfélaga sem veita framkvæmdaleyfi til vegagerðar. Það er ekki nýtt. Það hefur verið áður. Þetta ákvæði í lögunum er væntanlega og hefur verið með stuðningi vinstri grænna og við verðum að sjálfsögðu að fara eftir því.

Það er rétt sem hv. þingmaður talar um. Auðvitað hafa margir tjáð sig um þetta, þar á meðal borgarstjórn og jafnframt margir þingmenn. Það er bara allt í lagi og hið besta mál. Ég held að málið sé í farsælum farvegi. Það er ætlun okkar í samgönguráðuneytinu og Vegagerðinni að halda borgarafund sem ég hygg að verði haldinn innan hálfs mánaðar þar sem m.a. höfundar síðustu skýrslu munu útskýra (Forseti hringir.) þessi mál. Fólk getur fengið að spyrja þar út í og sagt sínar skoðanir. Ég held því að þetta sé bara í fínum farvegi.