135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

virðisaukaskattur á lyf.

[11:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í aðdraganda síðustu kosninga höfðu sjálfstæðismenn uppi mikil fyrirheit um að afnema ætti virðisaukaskatt af lyfjum. Reyndar töluðu fleiri flokkar í þá átt, m.a. Samfylkingin sem var með fyrirheit um að lækka virðisaukaskatt af lyfjum niður í 7%. Þessir flokkar hafa því markað skýra stefnu um að það eigi að lækka lyfjaverð hér á landi sem er því miður of hátt, og hefur komið í ljós að það er sérstaklega á smásölustiginu sem það hækkar allverulega. Síðasta ríkisstjórn náði miklum árangri í að semja við heildsala í þessum efnum þannig að verð frá heildsölum á lyfjum hefur lækkað verulega og við höfum sýnt árangur þar. Samt sem áður í ljósi þess að við erum dreifbýlt land og höldum úti mörgum smásölustöðum hefur álagningin í smásölu verið hærri hér á landi en í öðrum löndum sem á sér mjög eðlilegar skýringar að mörgu leyti.

Ég spyr, hæstv. forseti, hæstv. ráðherra að því hvað líði því stefnumiði Sjálfstæðisflokksins að afnema virðisaukaskatt af lyfjum, líka stefnumiði Samfylkingarinnar um að stórlækka virðisaukaskatt af lyfjum. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir því að lækka virðisaukaskatt af öðrum vörum, jafnvel sykurvörum, en hér er um mjög lífsnauðsynlega afurð að ræða sem snertir heilsu landsmanna allra. Það yrði heilmikil kjarabót fyrir sérstaklega aldraða og öryrkja og aðra sjúka að lækka vöruverð á lyfjum með því að lækka eða afnema virðisaukaskatt af þeim.