135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[11:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er með þessi kefli sem ríkisstjórnir undangenginna ára hafa haldið á loft á þessu málasviði, hvort það sé kannski ástæða til að leggja einhver þeirra til hliðar og taka upp ný kefli.

Það er nú svo að við nálgumst það að verja til þessa málaflokks, þessa mikilvæga málaflokks, 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu sem yrði þá um helmingur af því sem samþykktir alþjóðasamfélagsins kveða á um að ríki skuli stefna að. Reyndar er mikið af þessu framlagi á mjög gráu svæði vegna þess að framlag á sviðum sem tengjast hernaði teljast eða flokkast undir þróunarsamvinnu og vísa ég þar t.d. til hlutdeildar okkar í starfi í Afganistan. Eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá leggjum við mjög ríka áherslu á að aðgreina rækilega þarna í milli. Reyndar viljum við draga úr eða koma í veg fyrir að Íslendingar tengist yfirleitt hernaðarbrölti og hernaðarumsvifum NATO.

Afstaða okkar hefur þegar komið fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í öllum megindráttum. Ég vil víkja aðeins að aðkomu minni að málinu. Þann 8. febrúar var boðað til fundar í utanríkisráðuneytinu með formönnum þingflokka þar sem við fengum í hendur minnisblað með áherslum ráðuneytisins og fram fóru ágætar umræður um málefnið. Á næsta þingflokksfundi okkar voru hugmyndir utanríkisráðuneytisins kynntar og í kjölfarið ritaði ég hæstv. utanríkisráðherra bréf, með afriti til allra formanna þingflokkanna, þar sem ég vísaði í þennan fund en í bréfinu segir m.a.:

„Eins og ég sagði við þetta tækifæri virðist mér vera tvær leiðir færar.“ — Og hér er vísað í endurskipulagningu á stjórnsýslunni sem lýtur að þróunarsamvinnunni. — „Sú sem hér er boðuð að færa starfsemi sem snýr að þróunarsamvinnu nær utanríkisráðuneytinu og veita þinginu jafnframt beinni aðgang að henni og síðan hin leiðin að efla sjálfstæði Þróunarsamvinnustofnunar. Ákveðin rök eru fyrir báðum þessum leiðum. Í þingflokki VG var það sjónarmið mjög afdráttarlaust uppi að leggja bæri áherslu á síðari kostinn. Það er að tryggja sjálfstæði Þróunarsamvinnustofnunar og væru ýmis rök fyrir því að starfsemi hennar væri skýrt aðgreind frá utanríkisráðuneytinu.

Ég vildi koma þessu sjónarmiði á framfæri og að ég væri vissulega tilbúinn að koma að nýju til samráðsfundar um málið til færa rök fyrir þessari afstöðu. Hvað aðra þætti varðar má nefna að í góðan jarðveg hjá þingflokknum fellur sú hugmynd að almenn stefnumótun á þessu sviði byggi á samþykktum Alþingis.“

Eins og hér kemur fram þá fögnum við því að þingið verði virkara hvað varðar alla stefnumótun og eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá fögnum við því einnig að það skuli efnt til víðtæks samráðs um stefnumótun á sviði þróunarsamvinnu eins og 4. gr. frumvarpsins ber með sér en þar er fjallað um samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem er allfjölmennt og kæmi til með að koma saman tvisvar á ári hverju. Allt þetta gæti orðið framfaraspor. En hins vegar sjáum við ekki nauðsyn þess að fella niður stjórn sem nú er yfir Þróunarsamvinnustofnun. Þetta getur allt saman verið og starfað hlið við hlið.

En aðeins aftur að samráðinu. Það hefur verið mikið talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekki síst af hálfu hæstv. utanríkisráðherra að þörf sé á víðtækri þverpólitískri samvinnu um stefnumótun okkar á sviði utanríkismála. Það hefur hins vegar farið minna fyrir framkvæmdinni. Vegna þess að þó að okkur séu kynnt þessi minnisblöð og boðað sé til fundar þá er þetta enn sem komið er meira og minna til málamynda eða þannig upplifi ég það. Það hefði horft öðruvísi við ef við hefðum fengið þessar hugmyndir inn á borð til okkar, fengið tækifæri til að ræða þær eins og við höfum gert, leita álits og sjónarmiða þeirra sem vel þekkja til þessara mála eða koma að þeim á einhvern hátt og síðan hefðu menn sest yfir það við þverpólitískt borð að móta sameiginlega stefnu.

Ég auglýsi eftir vinnubrögðum af þessu tagi. Og þó að, eins og ég nefni hér og þegar hefur komið fram af okkar hálfu, við fögnum og teljum til góðs að efla samráð í þjóðfélaginu almennt um stefnumótun á þessu sviði þá má spyrja: Hvers vegna var þetta ekki einnig gert í aðdragandanum við mótun þessa frumvarps? Ég hvet því til þess að við gefum okkur góðan tíma og reynum að leita eftir samkomulagi, hugsanlegum málamiðlunum en samkomulagi sem þverpólitísk samstaða gæti orðið um.

Það er margt í þessu frumvarpi sem gæti vissulega verið til góðs. Aðra skafanka þarf að sníða af. Ég spyr t.d. um 6. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um störf í þágu friðar. Hvaða störf erum við að tala um þar? Erum við að tala um störf sem tengjast NATO eins og við rekum núna í Afganistan? Viljum við blanda slíku inn í þróunarsamvinnu? Ég held ekki.

Ég ítreka það að um þennan málaflokk sérstaklega sem við erum öll áhugasöm um að standa myndarlega að þarf að ríkja þverpólitísk sátt. Þetta á að vera hafið yfir flokkadrætti. Það er í þeim anda sem við teljum heppilegri kost að hafa Þróunarsamvinnustofnun sem sjálfstæða stofnun en ekki sem tæki nátengt utanríkisráðuneytinu eins og hér er gert ráð fyrir. Við teljum það einfaldlega óheppilegt fyrir málaflokkinn.

Við vitum að á Norðurlöndum hafa menn verið að feta sig inn á mismunandi brautir hvað þetta snertir. Danir hafa fært sína stofnun undir væng utanríkisráðuneytisins. Sú leið hefur líka verið farin í Noregi. Svíar hafa hins vegar farið aðra leið, eftir því sem ég hef vitneskju um, og vilja stuðla að sjálfstæði sinnar stofnunar. Ég tel að það sé heppilegri leið að fara.

Eitt í lokin varðandi aðkomu stjórnar að Þróunarsamvinnustofnun. Núverandi stjórn kemur saman mánaðarlega nema kannski yfir hásumarið, að jafnaði um tíu sinnum á ári. En hér er gert ráð fyrir að samstarfsvettvangur sem er góðra gjalda verður, eins og ég gat um áðan, verði einungis tvisvar á ári. Þarna er því verið að draga úr hinum reglubundnu samskiptum stofnunar við utanaðkomandi aðila sem nú er stjórn Þróunarsamvinnustofnunar.

Hæstv. forseti. Ég hvet til þess að við flýtum okkur ekki um of í þessu. Ég er sannfærður um að við getum náð samkomulagi um lausn sem allir flokkar hér á Alþingi gætu sæst við.