135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:08]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um þróunarsamvinnu. En mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann um hugtakið samráð sem var honum var mjög hugleikið í ræðu sinni áðan og sömuleiðis í tengslum við ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann lýsti eftirsjá að þeirri stjórn sem nú er yfir Þróunarsamvinnustofnun.

Ég er ósammála því að þverpólitísk stjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun sé betra fyrirkomulag en þetta frumvarp boðar nú vegna þess að það frumvarp sem hér liggur fyrir boðar aðkomu Alþingis að stefnumörkun í þróunarsamvinnumálum með því að nú hefur Alþingi tekið til umfjöllunar sérstakar skýrslur um þróunarsamvinnu. Sömuleiðis er aðkoma utanríkismálanefndar styrkt. Einnig er kveðið á um það í frumvarpinu að gerð verði fjögurra ára áætlun í anda samgönguáætlunar um starfsemi okkar í þróunarsamvinnu.

Þróunarsamvinna hefur hingað til ekki verið til umræðu í stjórnmálum eða á Alþingi. Það sem verið er að tryggja í þessu frumvarpi er að það fari fram alvöru pólitísk umræða, alvörusamráð um það hvernig við ætlum að haga uppbyggingu okkar og framtíðarsýn í þróunarsamvinnumálum. Ég er því algjörlega ósammála hv. þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að þverpólitískt samráð fari best á því að vera með skipaða fulltrúa í stjórn eins og nú er. Því það fyrirkomulag sem boðað er í þessu frumvarpi er miklum mun víðtækara og tryggir það að Alþingi þarf að fjalla um málið sem það hefur ekki gert hingað til.