135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um alvörusamráð. Það er einmitt það sem við erum að auglýsa eftir. Ég þekki það mjög vel úr verkalýðshreyfingunni þegar stjórnvöld hafa í gegnum tíðina talað um að samráð hafi verið haft þegar um það hefur verið að ræða að hreyfingunni eða verkalýðssamtökunum hefur verið tilkynnt hvað stjórnvöld hyggist fyrir. Þegar ég tala um alvörusamráð þá er ég að tala um alvörusamræðu þar sem menn hlusta á rök hvers annars. Það er það sem við erum að auglýsa eftir í stað þess sem við stöndum frammi fyrir núna. Við fáum afhent minnisblöð en það er ekki hlustað á sjónarmið okkar. Það er boðið upp á frekari samræður en það er slegið á allt slíkt og þingmálið kemur óbreytt inn í sali Alþingis. Ég er að tala um alvörusamráð. Hv. þingmaður virðist ekki hafa hlustað á það sem hefur verið sagt.

Ég var að tala um það og við höfum báðir, talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem þegar höfum tjáð okkur um þetta mál, lagt áherslu á að það sé jákvætt og mikilvægt að stefnumótunin sé byggð á samþykktum Alþingis. Við erum einnig að taka vel í það að skipaður verði samráðsvettvangur þar sem leitað verði sjónarmiða úr verkalýðshreyfingunni og sem víðast úr samfélaginu. Við erum hins vegar að leggja áherslu á að það sé heppilegra að hafa Þróunarsamvinnustofnun sem sjálfstæða stofnun. Ekki fastneglda í þeim mæli sem hér er gert ráð fyrir inni í stjórnsýslu utanríkisráðuneytisins.

Ég skal taka sem dæmi. Við erum að sækja um aðild, illu heilli, að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og menn fara víða um lönd og hafa gert á undanförnum árum. Síðan kynnu að koma upp einhverjar mótsagnir, t.d. að Þróunarsamvinnustofnun hefði einhver önnur sjónarmið en þættu heppileg á þessum tíma í utanríkisráðuneytinu.

Ég nefni þetta sem dæmi um mikilvægi þess að hafa þarna vel aðgreindar línur. Ekki bara fyrir Þróunarsamvinnustofnun heldur (Forseti hringir.) hugsanlega einnig fyrir þá sem fara með völdin í utanríkisráðuneytinu.