135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:12]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðustu tvær mínútur í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar skýrðu hlutina ágætlega vegna þess að ræða hans var mun neikvæðari en það sem fram kom í svari við andsvari mínu.

Af ræðu hans mátti skilja að þetta frumvarp væri mun verra en hann síðan svaraði mér. Það var þetta sem ég var að kalla eftir, að hv. þingmaður gerði okkur betur grein fyrir því hvað það væri sem hann væri á móti og hvers vegna.

Ég held að það samráðsferli sem verið er að setja í gang í þessu frumvarpi muni tryggja vel hina þverpólitísku aðkomu sem verið hefur í gegnum stjórn Þróunarsamvinnustofnunar og víkka hana verulega út, einmitt með því að eiga samtöl við verkalýðshreyfinguna og fleiri aðila í samfélaginu, vegna þess að á það hefur skort.

Það sem ég kann vel við og líkar mjög vel við í þessu frumvarpi sérstaklega er að það er verið að flétta svo marga aðila inn í þetta samráð. Slík áhrif hafa oft verið kölluð fiðrildaáhrif og þau gera það að verkum að fleiri verða meðvitaðir um mikilvægi þróunarsamvinnu og fleiri verða virkir þátttakendur og fleiri verða virkir gerendur í þróunarsamvinnu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að ríki og þjóð eins og Ísland taki virkan þátt í þróunarsamvinnu almennt.

Ég fagna því að ég hef þá náð fram skilningi á orðum hv. þingmanns eða ræðu hans sem mér fannst ekki vera nógu skýr áðan. En það er þá komið skýrt fram og ég fagna því. Ég fagna því sérstaklega og hlakka til að eiga hér samræður við þingmenn í framtíðinni um þróunarsamvinnumál á grundvelli þess að við séum hér að leggja upp (Forseti hringir.) alvöruáætlanir um þróunarsamvinnu til framtíðar.