135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Helgi Hjörvar fylgdi orðum sínum eftir með því að leggja okkur lið sem viljum kalla heim liðsafla okkar úr NATO-verkefnum í Afganistan þá værum við kannski nær því að vera sammála um þessa hluti en við erum ella. Ef hv. þingmaður telur það hins vegar eðlilegt að við séum þar í þeim NATO-verkefnum og jafnframt að friðargæslan blandist saman við Þróunarsamvinnustofnun þá er ég honum ósammála. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið ummæli hv. þm. Ögmundar Jónassonar eða gert sömu mistök og flokkssystir hans að hlusta ekki á ræðuna. Ég vona að það sé ekki þannig að þingmönnum Samfylkingarinnar, flokki samræðustjórnmála, þyki það verra eða óviðeigandi að menn komi hingað og segi kost og löst á þingmáli af þessu tagi, að menn lýsi því hverju þeir eru sammála og hvað þeir taka undir en komi með ábendingar um annað sem þeir telja að mætti betur fara. Ég verð að segja að foringjadýrkunin í Samfylkingunni er komin á nýtt stig ef það er orðið beinlínis óviðeigandi að gefa nokkuð annað í skyn en að allt sem frá hæstv. utanríkisráðherra komi sé fullkomið. Þá er það orðið verulega hátt stig foringjadýrkunar sem hefur verið innleitt í Samfylkingunni og er kapítuli út af fyrir sig.

Það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gagnrýndi og ég tek undir er að það ágæta samráð sem við höfum einmitt verið að fagna og aukinn hlutur Alþingis samkvæmt frumvarpinu birtist ekki í reynd í aðdraganda málsins. Hvorki núverandi né fyrrverandi utanríkisráðherra kusu að eiga þverpólitískt samráð um undirbúning málsins, ekki einu sinni í gegnum fulltrúa flokkanna í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar. Stjórn Þróunarsamvinnustofnunar var ekki höfð með í þessari vinnu. Það var eins með hana og þingflokkana að kallað var í hana með örstuttum fyrirvara rétt áður en málið var lagt fram til að tilkynna henni hvað í vændum væri. Það var þetta sem við vorum að gagnrýna en ekki þá framtíð sem boðuð er í frumvarpinu, um samráð og aukinn hlut Alþingis.