135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:37]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um Afganistan ræðum við síðar í dag og verður spennandi að fylgjast með þeirri umræðu. En ég verð að segja að mér er nú orðið ljósara en við upphaf umræðunnar hvaða grundvallarmunur er á skoðunum okkar, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og mín, um þróunarsamvinnuna þegar hann segir að hún eigi að vera hreint fagleg og ekki pólitísk. Ég held að hún sé þvert á móti afar pólitísk og að þess vegna sé mjög mikilvægt að þingið komi með sterkum og afgerandi hætti að þeirri stefnumörkun. Ég er kominn til að fagna því og það er þá ástæða til að vera ánægður með að þessi afstöðumunur sé að verða ljós. Ég á bágt með að átta mig á því hvers vegna þróunarsamvinnan er ekki pólitísk og eigi ekki að vera á pólitískum forsendum. Stefnumörkun hennar hlýtur auðvitað fyrst og síðast að vera pólitísks eðlis og eftirlit með henni sömuleiðis þótt hægt sé að taka undir að óeðlilegir hagsmunir hvers konar eiga auðvitað ekki að hafa áhrif á hana frekar en nokkurn annan málaflokk.