135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:38]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá jákvæðu og málefnalegu umræðu sem farið hefur fram í þingsalnum um frumvarp til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu og einnig það sem fram hefur komið að hér sé um tímabært og jákvætt skref að ræða í okkar alþjóðlegu þróunarsamvinnu.

Hér hafa komið fram ákveðnar athugasemdir sem er ekki nema eðlilegt og ætla ég aðeins að reyna að svara örfáu af því sem þar hefur komið fram. Ég vil í fyrsta lagi bregðast við þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sem hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa lagt mikla áherslu á, að hún verði áfram starfandi vegna þess að þar með sé tryggð þverpólitísk fagleg stjórn á þessum málaflokki.

Í fyrsta lagi held ég að menn verði að hafa í huga að aðeins tæpur helmingur af því sem fer til þróunarsamvinnu fer til Þróunarsamvinnustofnunar og heyrir þar undir þannig að eins og málum er háttað í dag nær hin pólitíska stefnumótun ekki yfir nema tæplega helming þeirra framlaga sem fara til þróunarsamvinnu. Það sem verið er að gera núna með þessu er að tryggja að pólitíkin og Alþingi komi að öllum málaflokknum, hvort sem það er hin tvíhliða þróunaraðstoð sem nú er á vegum Þróunarsamvinnustofnunar og byggir alfarið á samningum við ríki um einstök verkefni, eða hinir fjölþjóðlegu þættir þróunarsamvinnunnar. Það er því verið að breikka það svæði sem pólitíkin hefur til umfjöllunar frá því sem nú er.

Eins og málum er háttað fer Þróunarsamvinnustofnun aðeins með þann þátt þróunarsamvinnunnar sem byggir á tvíhliða samningum við ákveðin og tiltekin ríki. Slíkir samningar eru auðvitað eins og gefur að skilja yfirleitt til langs tíma því að þegar við skuldbindum okkur til að starfa á vettvangi og senda fólk á vettvang þá erum við ekki að tjalda til einnar nætur. Við gerum það til lengri tíma og mér finnst eðlilegt að það sé Alþingi sem taki afstöðu til slíkra verkefna en það sé ekki inni í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar eins og málum er háttað í dag. Alþingi á hins vegar að móta stóru línurnar um það í hvaða löndum við ætlum að starfa, að hvaða verkefnum, á hvaða sviðum við ætlum að starfa í Þróunarsamvinnustofnun og verið er að flytja það vald hingað yfir á Alþingi.

Það hefur líka komið fram að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sé fagleg og sjálfstæð og tryggi framkvæmd með faglegum hætti. Það er mikilvægt ef hugsanlegur ágreiningur verður við utanríkisráðuneytið — hér tók hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon dæmi um það ef um eitthvert Afríkuríki væri að ræða sem við vildum koma okkur í mjúkinn hjá vegna framboðs til öryggisráðsins.

Þá vil ég segja að ég hef sótt um aðild Íslands að DAC sem er sú þróunarnefnd sem starfar á vegum OECD og á einmitt að hafa eftirlit með því að faglega sé unnið að þróunarsamvinnu á vegum einstakra ríkja og að það sé gert samkvæmt þeim skilmálum, siðareglum og viðmiðunum sem alþjóðasamfélagið samþykkir. Svona tilvik eins og hv. þingmaður nefndi mundi væntanlega ekki gera það. Með því að fella okkur undir DAC erum við að tryggja að staðið sé að málum í samræmi við þær reglur sem um þetta gilda.

Öll þau verkefni sem við sinnum nú í þróunarsamvinnu, þar með verkefni í Afganistan, eru talin standast þær skilgreiningar sem DAC gerir.

Einnig hefur komið upp í umræðunni og verið gagnrýnt að verið sé að setja störf í þágu friðar undir alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og undir þróunarsamvinnusvið í utanríkisráðuneytinu. Vísað er til þess að þá sé verið að vinna einhver verkefni sem ekki séu samrýmanleg alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Ég hefði haldið að það væri einmitt fengur í því fyrir Vinstri græna og sjónarmið sem þau standa fyrir í pólitík, að störf í þágu friðar séu færð undir alþjóðlega þróunarsamvinnu og undir þetta svið í utanríkisráðuneytinu vegna þess að þar með ætti að vera tryggt að öll þau verkefni sem við tökum þátt í uppfylli þau skilyrði og þær reglur sem um hina alþjóðlegu þróunarsamvinnu gilda. Það ætti að vera í því nokkur trygging fyrir okkur varðandi störf í þágu friðar að þau séu þess eðlis að þau samræmist m.a. þeim lögum sem við höfum samþykkt á Alþingi um friðargæsluna.

Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson kom líka inn á það, þá vil ég benda á að þetta mundi þýða að verkefni, sem við sinnum núna m.a. og styrkjum í gegnum UNIFEM og UNICEF og falla undir friðarverkefni, eru hluti af þessari þróunarsamvinnu okkar. Við leggjum framlög til UNIFEM og UNICEF beinlínis til að sinna þróunarsamvinnu samhliða því að við sinnum störfum í þágu friðar í gegnum þessi samtök. Ég lít svo á að við fengjum út úr þessu betri samræmingu á því sem við erum að gera á vettvangi og nægir t.d. að nefna Srí Lanka í því sambandi. Þar vorum við bæði með fólk á vettvangi til að sinna friðargæslu og friðareftirliti en einnig fólk til að sinna þróunarsamvinnu þar og það er mikilvægt að geta samræmt þetta tvennt svo vel fari. Ég hefði haldið að það væri fengur í því fyrir Vinstri græna og pólitískar hugmyndir sem þau hafa í þessu sambandi, að þetta væri fært undir þróunarsamvinnusvið í utanríkisráðuneytinu og skilgreint sem hluti af því. En auðvitað er hægt að ræða það allt og fara betur yfir málið í utanríkismálanefnd þegar það fer þangað til umfjöllunar.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um 0,7% markmiðið, að setja 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. Hún spurði hvort ástæða væri til að lögfesta markmiðið eða setja fram ákveðið ártal en ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að lögfesta það. Ég minni á að það var prósenta inni í gömlu lögunum frá 1981 sem aldrei hefur náðst enda er alþjóðasamfélagið líka að breyta þessum viðmiðunum. Það er ekki eðlilegt að við festum okkur við ákveðin hlutföll í lögum en við eigum auðvitað að setja okkur markmið um það hvernig við ætlum að ná þessum 0,7%. Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þetta sé hluti af þeirri fjögurra ára áætlun í þróunarsamvinnumálum sem á að leggja fyrir þingið. Ég vonast til þess, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, að hægt sé að leggja slíka þingsályktunartillögu fyrir þingið í haust.

Einnig kom fram hjá þingmanninum að kannski væri ástæða til að hafa árlega umræðu um þróunarmál vegna þeirra fjármuna sem verið er að setja í málaflokkinn. Mér fannst eðlilegt í þessu sambandi að taka mið af því hvernig þingið stendur að málum, t.d. varðandi samgönguáætlun. Þar er gert ráð fyrir að samgönguáætlun sé lögð fram annað hvert ár í þinginu og eru gríðarlegir fjármunir þar undir. Mér fannst eðlilegt að við hefðum svipaðan hátt á með þróunarsamvinnuna, að hún væri rædd hér og áætlun lögð fram annað hvert ár. Ef menn vilja síðan breyta þeirri áætlun er að sjálfsögðu hægt að gera það oftar en það ætti að festa í lög að slíka áætlun eigi að leggja fram annað hvert ár.

Þingmaðurinn spurði hvort ekki væri ástæða til að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra og af hverju væri ekki kveðið á um það í sjálfu frumvarpinu. Ég lít svo á að það sé algerlega sjálfgefið og þurfi ekki að taka það fram að þegar þessi staða losnar, eins og aðrar stöður í okkar stjórnkerfi, verði hún auglýst og það þarf ekki að taka það sérstaklega fram í þessum lögum. Það er hin almenna lagaskylda í kerfinu að slíkar stöður séu auglýstar og það hafði ég hreinlega gefið mér að væri algerlega ljóst.

Varðandi reglugerðarheimildir sem menn hafa talað um að séu nokkuð víðtækar í þessu frumvarpi þá held ég að þær reglugerðarheimildir sem hér eru kveði fyrst og fremst á um verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar og hvernig eigi að haga henni. Ég held að í einhverjum tilvikum væri sjálfsagt um það að ræða að ráðherra gæti einfaldlega ákveðið án reglugerðar hvernig þessari verkaskiptingu væri háttað en að gefa út reglugerðir sé til skýringar og geri stjórnsýsluna gegnsærri og auðveldara að hafa eftirlit með henni. Þess vegna eru m.a. þessar reglugerðarheimildir þarna inni en auðvitað er sjálfsagt að fara yfir það allt saman í utanríkismálanefnd.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði af hverju greinarmunur væri gerður á starfskjörum heima og erlendis í bráðabirgðaákvæðinu í frumvarpinu. Ástæðan er einfaldlega sú að þegar þessi starfskjör verða samræmd á vettvangi milli utanríkisþjónustunnar og Þróunarsamvinnustofnunar — en það er ekki nákvæmlega það sama sem gildir í dag — verður af því ávinningur fyrir ákveðna starfsmenn. Aðrir geta fengið eitthvað lakari kjör þegar þetta gerist þar sem þeir starfa á vettvangi og þess vegna er verið að tryggja að menn sem hafa ráðið sig inn á tilteknum starfskjörum geti haldið þeim áfram á vettvangi eða valið hvort þeir fara yfir í þetta nýja kerfi. Þetta var fyrst og fremst hugsað til að tryggja réttarstöðu þeirra starfsmanna sem eru á vettvangi og njóta ekki algerlega sambærilegra kjara á við utanríkisþjónustuna varðandi starfskostnaðargreiðslur og ýmislegt annað sem er á vettvangi en er ekki fyrir hendi þegar starfsmennirnir starfa heima.

Varðandi samráðið um gerð frumvarpsins þá hefur verið rætt við um 100 manns í undirbúningi þess. Stuðst hefur verið við skýrslur sem gerðar hafa verið, rætt hefur verið við stjórn Þróunarsamvinnustofnunar m.a. og farið á hennar fund. Þar voru þessi mál rædd efnislega, ekki frumvarpið sem slíkt eins og það liggur fyrir núna heldur stefnumörkunin sem þar býr að baki og var farið yfir þau mál. Það var auðvitað alltaf ljóst að skiptar skoðanir gætu orðið um hvort það ætti að vera sjálfstæð stjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun eða ekki og sýnist sitt hverjum um það. Ég tel að mikilvægt sé að tryggja að það sé skýr ábyrgð á málaflokknum hjá ráðherra hvort sem það er tvíhliða eða marghliða þróunarsamvinna og að ábyrgð forstöðumanns Þróunarsamvinnustofnunar gagnvart ráðuneytinu sé líka skýr. Síðan á aðkoman fyrst og fremst að vera í gegnum Alþingi, í gegnum utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd þingsins. Þannig er tryggð aðkoma Alþingis bæði að stefnumörkuninni og eftirlitinu í gegnum þær nefndir þingsins sem með þessi mál fara. Mér fannst mjög athyglisvert þegar ég fór að skoða þessi mál hversu lítið í rauninni Alþingi, utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd hafa látið sig þessi mál varða á undanförnum árum. Verið er að reyna að stuðla að því að þetta geti breyst.

Ég ítreka, virðulegur forseti, þakkir fyrir jákvæða umfjöllun um þetta frumvarp og málefnalega umræðu. Ég geri ráð fyrir því að hægt sé að fara betur yfir einstök atriði í utanríkismálanefnd eftir því sem verkast vill.