135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[13:02]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þau svör sem komu hér frá hæstv. ráðherra. Það er gaman að hlusta á Samfylkinguna tala um þessi mál núna. Það er talað með allt öðrum hætti en fyrir síðustu kosningar og á síðasta kjörtímabili. Sérstaklega er gaman að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar tala um þessi mál. Hann viðurkenndi hér að það voru tímabær og góð aukin framlög sem sett voru fram á síðasta kjörtímabili. En þetta er nú orðræða sem heyrðist aldrei þá, það er ágætt að menn skuli sjá sannleikann í dag.

Ég vil ítreka spurningu mína varðandi 0,7% hlutfallið sem Sameinuðu þjóðirnar settu fram 1970. Það var svolítið gaman í því sambandi að sjá að við Íslendingar vorum farin að veita þróunaraðstoð áður en við sjálf hættum að þiggja slíka aðstoð frá Sameinuðu þjóðunum, það er nú svolítið merkileg staða. En gott og vel.

Árið 2004 setur ríkisstjórnin fram þá áætlun að auka framlögin upp í 0,35%, ef ég man rétt, árið 2009 af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta er nú handan við hornið, á næsta ári. Ég býst við því, miðað við það hvernig frumvarpið er, að ráðherra leggi þessi mál fram í formi þingsályktunartillögu eða einhvers konar áætlunar sem við munum fjalla um hér og þar verði inni tölur um hvernig við ætlum að trappa upp þessi framlög. Það verður þá líklega á tímabilinu 2010–2015, kannski fimm ára tímabil.

Mun ráðherra beita sér fyrir því að árið 2015 verðum við komin upp í 0,7% hlutfall? Ég heyri að ráðherra vill ekki lögfesta það og ekki gefa það út á þessu stigi. En megum við eiga von á því að árið 2015 verðum við komin upp í þetta hlutfall eins og þá öll Norðurlöndin? Finnar hafa sett það markmið opinberlega fram. Eða telur ráðherra að það sé ólíklegt að við förum svo bratt fram?