135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[13:07]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði reyndar ekki „á svipuðum tíma og önnur Norðurlönd“ vegna þess að mér er fullkomlega ljóst að þessi þrjú Norðurlönd, Danmörk, Svíþjóð og Noregur, eru þegar komin með þetta hlutfall. Ég sagði „og aðrar þjóðir hér í kringum okkur“, sem er heldur víðari skírskotun.

Ég tel rétt að við stígum eitt skref í einu. Við skoðum þetta frumvarp núna og við afgreiðum það. Ríkisstjórnin á eftir að leggja fram á Alþingi skýrslu eða greinargerð um langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Þetta verður auðvitað að tengjast öðrum verkefnum sem ríkið ætlar að vinna að. Og ég hef sagt það. Ég mun leggja þessa áætlun fram á þinginu í haust og þá mun þetta allt saman koma fram. Ég verð bara að biðja hv. þingmann að þreyja þorrann og góuna fram til hausts.