135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[13:31]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi mál ná að koma hér á dagskrá og við getum rætt þau að viðstöddum hæstv. utanríkisráðherra.

Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimkvaðningu friðargæsluliða frá Afganistan og endurskipulagningu íslensku friðargæslunnar. Tillagan er á þskj. 306 og er 273. mál þingsins. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kalla heim íslenska friðargæsluliða í Afganistan, sem þar starfa sem hluti liðsafla NATO. Jafnframt verði þátttaka Íslands í friðargæslu og verkefnaval endurskipulagt í samræmi við markmið nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Skal utanríkisráðherra vinna að þeirri endurskipulagningu í nánu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.“

Ný lög um íslensku friðargæsluna og hin fyrstu tóku gildi 5. apríl 2007. Samkomulag tókst meðal allra þingflokka um afgreiðslu málsins eftir að tekið hafði verið tillit til athugasemda minni hluta utanríkismálanefndar við upphaflegt frumvarp. Þótti einkum þörf á að taka af öll tvímæli um að störf friðargæslunnar skyldu alfarið vera borgaralegs eðlis. Orðalag í upphaflegri markmiðsgrein frumvarpsins, 1. gr., sem vísað gat til þess að alvopnaðar sveitir tækju sér stöðu milli stríðandi aðila á átakasvæðum, var fellt út en tilvísun til fyrirbyggjandi aðgerða og friðaruppbyggingarstarfs kom í staðinn. Með þessu setti Alþingi skýrt mark sitt á löggjöfina og breytti henni í þeim anda sem ég og við sem að minni hluta stóðum á sínum tíma vorum ákaflega sátt við. Einnig var gerð sú breyting á og talin til þess rík ástæða að bæta við 1. gr. frumvarpsins ákvæði um að verkefni íslensku friðargæslunnar megi aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga. Á þessa viðbót féllst meiri hluti nefndarmanna og Alþingi og í framhaldsnefndaráliti var gerð grein fyrir því hver þessi ákvæði einkum væru, þ.e. samningur um mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948, samningar Evrópuráðsins um mannréttindi og má þar auðvitað helst nefna sjálfan mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950 með breytingum og viðaukum, Evrópusamning um varnir gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, ásamt bókunum, og svo að sjálfsögðu Genfarsamningarnir frá 1949 auk ýmissa samninga Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við metum það eftirleiðis hvort framganga og þátttaka friðargæsluliða okkar í verkefnum sé óyggjandi á þannig forsendum og verkefnin þannig framkvæmd og þess eðlis að ekki leiki vafi á að þau uppfylli öll þessi ákvæði, þar á meðal um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Er ég þá sérstaklega með Afganistan í huga.

Tillaga sú sem hér er flutt er hins vegar byggð á þeirri skoðun að forsendur fyrir dvöl íslensku friðargæslunnar í Afganistan verði að teljast lagalega afar hæpnar með tilliti til anda og markmiða nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Sú vera okkar þarna var áður til komin og með þessu er ekki verið að fella neinn dóm yfir framgöngu eða frammistöðu okkar fólks þarna heldur eingöngu að setja það í lagalegt samhengi. Það er staðreynd að friðargæsluliðarnir starfa að verkefnum sem stjórnað er af Atlantshafsbandalaginu og þeir bera a.m.k. sumir hverjir hernaðarlega starfstitla í samræmi við hernaðarskipulag NATO, svo sem Deputy Commander, Assistant Commander, Officer o.s.frv. Því miður er það svo að fjöldi óbreyttra borgara sem fallið hafa eða eru að falla í átökunum í Afganistan fer vaxandi, einkum í loftárásum NATO en í nokkrum mæli í hernaði á jörðu niðri. Hafa þær tölur farið hækkandi eftir því sem á stríðið hefur liðið. Loftárásirnar virðast hins vegar, þrátt fyrir hinar miklu mannfórnir, koma að litlu ef nokkru gagni og eru ekki líklegar til að binda endi á ófriðinn í landinu. Hefur m.a. þjóðþing Afgana sjálft ályktað að þeim skuli hætt vegna þess mikla mannfalls sem þær valda meðal óbreyttra borgara. Í ræðu sinni á fundi þingmannasambands NATO í Reykjavík hvatti framkvæmdastjóri NATO menn til dáða en varaði jafnframt við því að ekki væri að vænta skjótfengins árangurs í Afganistan. Hann lagði hins vegar þunga áherslu á að þingmenn þyrftu að taka á sig það óvinsæla verk að hvetja þjóðþing sín til að leggja meira af mörkum þar um ókomin ár. Þrátt fyrir þessar brýningar sætir þátttaka margra grannríkja okkar í verkefninu í Afganistan vaxandi gagnrýni og hefur verið hávær umræða á köflum um að liðsafli þaðan skuli kallaður heim.

Atlantshafsbandalagið er komið í mikla ófæru í Afganistan eins og öllum má ljóst vera. Þessu verkefni var hent í NATO af Bandaríkjamönnum sem með hjálp Breta hófu að láta sprengjum rigna yfir landið haustið 2001. Því má segja að Bandaríkjamenn séu farnir að nota NATO sem einhvers konar upphreinsunardeild eftir sig þar sem þeir hafa látið til sín taka, tekið til hendinni, ef það er þá viðeigandi samlíking í þessu tilviki.

Það væri að sjálfsögðu strax til bóta ef við drægjum liðsafla okkar út úr NATO-verkefnum og færðum hann undir stjórn Sameinuðu þjóðanna sem jafnframt eru með starfsemi í Afganistan. En langheppilegast er þó að kalla einfaldlega liðsaflann heim, eins og tillagan gerir ráð fyrir, og endurskipuleggja í framhaldinu alla þátttöku okkar og framgöngu og verkefnaval á þessu sviði. Skuldbinding friðargæslunnar samkvæmt nýjum lögum til þess að virða ætíð mannúðar- og mannréttindasamninga er þó ein og sér næg ástæða til þess að kalla liðsaflann heim vegna þess mikla vafa sem á því leikur að það sem fram fer í Afganistan standist slíkar kröfur og ég vísa þar til vaxandi þunga í gagnrýni alþjóðlegra mannréttindasamtaka á það sem fram fer. Með þátttöku Íslands í friðargæslunni í aðgerðum NATO í Afganistan gerist Ísland í raun samábyrgt með öðrum NATO-ríkjum fyrir aðgerðum þar sem lífi óbreyttra borgara er sannanlega ekki þyrmt og þar með erum við sek um að brjóta téða samninga.

Í þessu sambandi væri áhugavert fyrir menn að kynna sér ræðu framkvæmdastjóra NATO og málflutning sem ég hef þegar vísað til og ekki síður kannski ræðu varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sem hann flutti í Þýskalandi 10. febrúar sl. Þar er talað tæpitungulaust um verkefnið í Afganistan og hvað hið nýja NATO stendur fyrir. Það er sagt að það sé án nokkurs vafa þannig að aðgerðin í Afganistan eigi sér ekki hliðstæðu í sögu NATO, með leyfi forseta:

„It is in fact NATO's first ground war and it is dramatically different than anything NATO has done before.“

Það er alveg rétt, NATO er í stríði í Afganistan og við erum hluti af því stríði, bæði sem NATO-meðlimir og sem þjóð sem á þarna liðsafla í þessu kerfi.

Robert Gates lagði einnig mikla áherslu á að hið nýja NATO mætti ekki við því að innan þess mynduðust tvær deildir og það væru forréttindaríki sem tækju sér þá stöðu að takast ekki á í bardögum og sinna eingöngu verkefnum á svæðum þar sem mannfall væri lítið eða ekkert. Og það var ekkert verið að skafa utan af því þegar sagt var, og ég leyfi mér að þýða þetta lauslega hér úr ræðustólnum:

„Sum aðildarríki ættu ekki að hafa þann lúxus að taka aðeins þátt í verkefnum, borgaralegum verkefnum og verkefnum sem miða að því að innleiða stöðugleika á meðan önnur bera allar byrðarnar af bardögum og missa menn.“

Með öðrum orðum, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna er að ögra öðrum NATO-ríkjum til þess að fara í bardagana með þeim og sætta sig við mannfall. Og hvernig er nú ástandið í þeim efnum, hvert er mannfallið orðið í Afganistan? Hvaða blóðfórnir eru færðar, hversu mörg vestræn ungmenni hafa látið lífið síðan hildarleikurinn í Afganistan hófst?

Ef lagðar eru saman tölurnar frá aðgerðum Bandaríkjamanna og Breta strax frá árinu 2001 og síðan aðgerða ISAF eða NATO hafa tæplega 500 Bandaríkjamenn fallið í átökum, 89 Bretar, 78 Kanadamenn, 25 Þjóðverjar, 23 Spánverjar, 14 Hollendingar, 12 Frakkar, 12 Ítalir, 10 Danir, 5 Rúmenar, 4 Ástralir, 3 Norðmenn, 2 frá Eistlandi, 2 frá Portúgal, 2 Svíar, 1 Tékki, 1 Finni, 3 Pólverjar og 1 Suður-Kóreubúi. Þetta er listinn í grófum dráttum u.þ.b. eins og hann stóð fyrir nokkrum dögum eftir þeim bestu upplýsingum sem ég hef.

Mannfall óbreyttra borgara stendur u.þ.b. þannig að á árinu 2006, sem nú teljast nokkuð áreiðanlegar tölur liggja fyrir um, féllu rétt tæplega þúsund óbreyttir borgarar í Afganistan, þar af 116 í loftárásum NATO-hersins og 114 í aðgerðum NATO á jörðu niðri. Svo er deilt um það hve margir hafi fallið af öðrum ástæðum, annars vegar vegna árása talibana eða skæruliðahópa og hins vegar vegna aðgerða NATO.

Nú er talið að mannfallið á síðasta ári hafi verið tvöfalt það sem það varð árið 2006. Við gætum með öðrum orðum verið að tala um u.þ.b. 2 þúsund óbreytta borgara sem hafa misst þarna lífið, mjög margir þeirra í loftárásum þar sem ráðist er á þorp eða svæði og er algerlega óvíst að nokkur sem átökunum tengist sem slíkur hafi verið þar á staðnum. Það hafa verið sprengd í loft upp heilu brúðkaupin fyrir misgáning.

Úr því að verkefnið skilar ekki meiri árangri en raun ber vitni ættu menn kannski að hugleiða spurninguna: Hvaða erindi eigum við Íslendingar þarna með okkar „borgaralegu friðargæslu“? Auðvitað ekki neitt, auðvitað eru næg verkefni sem eru nærtækari fyrir okkur og henta okkur betur sem herlausri og vonandi friðelskandi smáþjóð og þar eigum við að beita kröftunum en ekki í þessu NATO-samhengi.

Síðan eru hlutirnir kannski ekki eins og þeir sýnast á yfirborðinu og ég vitna aftur, í annað sinn í dag, í leiðara dagblaðsins 24 stundir þar sem verið er að tala um hinn ánægjulega fund sem Geir H. Haarde forsætisráðherra átti með Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, með NATO-höfðingjanum. Þar var verið að hrósa Íslandi fyrir þátttökuna í þessu verkefni og að það væri mikilvægt framlag af Íslands hálfu úr því að Ísland hefði ekki her og gæti ekki barist, eins og Robert Gates vill þó helst, og látið menn falla. Síðan segir að það hafi verið samhengi í því þegar Geir H. Haarde fór á sínum tíma fram á atbeina NATO til að tryggja eftirlit í íslenskri lofthelgi og hét um leið auknum framlögum til friðargæslunnar í Afganistan. Þetta er engin smáfullyrðing og það væri gaman að heyra álit hæstv. utanríkisráðherra á þessu. Er þetta beinlínis endurgjald í pólitísku skyni sett inn í þetta samhengi NATO-væðingarinnar sem hæstv. utanríkisráðherra stendur fyrir og við eigum kannski eftir að ræða meira á yfirstandandi þingi þegar fumvarp til svokallaðra varnarmálalaga kemur hér aftur fyrir ef það gerir það þá, sem ég mundi gráta þurrum tárum að yrði ekki.

Ég held að við séum á mjög háskalegri braut og höfum auðvitað verið allan tímann. Það ber að taka fram, núverandi hæstv. utanríkisráðherra til nokkurrar málsvarnar, að auðvitað vorum við komin þangað inn fyrir atbeina fyrri ríkisstjórnar og án nokkurra laga til að byggja á þessa starfsemi svo ótrúlegt sem það nú var. Réttarstaða okkar fólks sem hafði verið sent inn á átakasvæði í fyrrum Júgóslavíu og svo í Afganistan var í lausu lofti þó að farið væri að stunda þar vopnaburð og við getum kallast mjög heppin, Íslendingar, að allir hafa komið heim sæmilega heilir heilsu, a.m.k. enginn í kistu eða poka. En við getum engu treyst í þeim efnum að það verði um alla framtíð, sérstaklega ekki ef við höldum þessu samkrulli við NATO-aðgerðir eða hernaðarbrölt Bandaríkjamanna í fjarlægum heimsálfum áfram.

Þess vegna er langhreinlegast og það væri í anda laganna og þeirrar samstöðu sem tókst um breytingu á frumvarpinu um íslensku friðargæsluna að endurskilgreina alveg þátttöku okkar að þessu leyti, hætta í öllum NATO-verkefnum og þá getum við farið að ræða það sem við skiptumst á skoðunum um fyrir hádegishléið, hvort friðargæslan getur eftir atvikum verið í einhverjum tengslum við þróunarsamvinnuverkefni okkar. Að óbreyttu og miðað við framkvæmdina eins og hún liggur fyrir í Afganistan er það algjörlega út úr korti að okkar mati.