135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[13:56]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stöðu þessara mála í nágrannalöndunum þá var ég fyrst og fremst að vitna til hinnar almennu umræðu þar og þó svo að t.d. á norska þinginu hafi orðið samstaða um að halda verkefninu áfram þá þurfa menn nú ekki mikið að fylgjast með fjölmiðlum þar í landi eða þekkja þar eitthvað til til þess að vita að þátttaka Norðmanna er mjög umdeild. Þar eru háværar umræður um það hvort réttlætanlegt sé að norsk ungmenni falli í Afganistan í þágu þessa verkefnis eins og það er kallað.

Við skulum bara muna eftir því hvað þarna er á ferðinni. Þetta er land í rústum eftir langvarandi stríðsátök og þar á meðal og ekki síst hinar heiftarlegu loftárásir sem Bandaríkjamenn með stuðningi Breta hófu á landið haustið 2001 og áttu að vera svona stutt leifturstríð og svo yrði allt í fína lagi.

Það er þessi aðferðafræði sem er að bíða gjaldþrot eða skipbrot í Afganistan, að koma úr lofti og láta sprengjum rigna yfir land og ímynda sér svo að það sé hægur leikur að ná síðan tökum á öllu saman. Byggja upp lýðræði og mannréttindi og allir verði vinir. Það er nú bara ekki þannig. Fólk sem búið er að henda á sprengjum lítur ekki á það sem sérstakan vinargreiða jafnvel þótt menn séu að reyna að stugga þar við einhverjum miður félegum valdhöfum. Það er bara ekki þannig.

Ég var að sjálfsögðu ekki að halda því fram, svo að enginn misskilningur sé í gangi um það, að framganga Íslendinga sem slíkra og það sem þeir hafa gert í Afganistan væri brot á alþjóðamannréttindasamningnum. Ég var að vísa til aðgerðarinnar sem NATO ber ábyrgð á og ég talaði um samábyrgð okkar þar með sem NATO-ríkis og auðvitað þátttakanda í verkefninu.

Ég vísa aftur til og minni á hina háværu umræðu á vegum alþjóðlegra mannréttindasamtaka um að hið geigvænlega fall óbreyttra borgara, einkum í lofhernaðinum, fái ekki staðist. Þeir séu greinilega (Forseti hringir.) í allt of miklum mæli fórnarlömb, skotmörk, en eins og við vitum er slíkt bannað.