135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:00]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ábyrgðarlaust að vera þarna áfram. Við eigum ekki að líta svo á að við séum nauðug föst í þessu verkefni sem fór ekki af stað á okkar ábyrgð. Við höfum fullan rétt til að skilgreina það hvort þannig sé að þessu staðið að það samrýmist markmiðum okkar og þátttöku á sviðum sem þessum.

Þarna sýnir bandaríska aðferðafræðin kosti sína, eða hitt þó heldur. Þetta er Afganistan/Írak aðferðin. Fyrst skilgreinir þú vondu gæjana, þeir eru óalandi og óferjandi og svo ferðu og sprengir dálítið hjá þeim og býst svo við að allt komist í fína lag á eftir. Þessi aðferð hefur beðið skipbrot. Það er ekki að ástæðulausu að Bandaríkjamenn hafa hrunið jafnrosalega í áliti í alþjóðasamfélaginu og raun ber vitni. Okkur ber engin skylda til að elta þá áfram út í þetta fúafen sem fyrst og fremst er á þeirra ábyrgð. Það voru þeir og Bretar sem fóru þarna inn eins og allir þekkja.

Tökum bara dæmi um vandasama deilu sem hefur farsællega tekist að leysa, ekki langt í burtu frá okkur á Norður-Írlandi. Hvernig leystu menn það? Leystu menn þær deilur með því að skilgreina Sinn Fein sem hryðjuverkasamtök og tala ekki við þá? Nei. Var það gert með því að fara og henda sprengjum á Belfast? Nei. Menn fóru samningaleiðina. Við getum velt því fyrir okkur hvernig bandaríska aðferðin hefði dugað þar. Er líklegt að ástandið væri betra en það þó er?

Við horfum upp á gjaldþrot hernaðarhyggju og sprengjuaðferðafræði. Það er óskaplega auðvelt að vera í tuga þúsunda feta hæð uppi í háloftunum, í öruggu skjóli í einhverjum stáldreka og láta sprengjum rigna niður yfir vanþróuð lönd. En mér sýnist ekki að það leysi mikið af vandamálum í heiminum og við Íslendingar eigum ekki að láta þvæla okkur inn í slíkar aðgerðir.