135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja að mér þykir þessi tillaga hv. þingmanna Vinstri grænna sem hér er til umfjöllunar einkennast nokkuð af sérstæðum plagsið þess annars ágæta flokks, að benda í alþjóðamálum á eitthvað annað en ekki endilega hvað. Ég held að við getum öll verið sammála eða eigum öll að vera sammála um að friðargæsla sem alþjóðlegt verkefni er mjög verðugt verkefni. Og af því að hv. þm. Jón Magnússon lýsti hér áðan eftir málstaðnum sem væri verið að verja, þá er mjög auðvelt að lýsa honum. Það er verið að aðstoða meðbræður okkar við að ná friði, að ná tökum á samfélagi sínu og aðstoða þá við uppbyggingu þess og koma í veg fyrir enn verra ástand. Það er sú ábyrgð sem hvílir á alþjóðasamfélaginu og það er sú ábyrgð sem alþjóðasamfélagið axlar í gegnum öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem veitir Atlantshafsbandalaginu umboð til að leiða þetta verkefni.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að hann vildi fara í friðargæsluverkefni en bara á vegum Sameinuðu þjóðanna, ekki á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þetta verkefni er á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þar er hins vegar ekki til að dreifa möguleikum til þess að beita nauðsynlegum úrræðum á svæði eins og Afganistan þar sem eru staðbundnar skærur og árásir. Þess vegna leitar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eftir atbeina Atlantshafsbandalagsins og aðstoð. Af hverju? Vegna þess að öfugt við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þreytist ekki á að lýsa hér, er Atlantshafsbandalagið lýðræðisleg samtök sem byggja á samstarfi lýðræðisríkja. Herafli þess og herstjórnarkerfi lýtur lýðræðislegu eftirliti og það er sá grunnur sem Atlantshafsbandalagið byggir á. Hv. þingmaður getur því sett á langar ræður og blandað saman ólíkum hlutum, hernaðarstefnu núverandi stjórnvalda í Washington, sem við erum sammála um að sé alvonlaus, og Atlantshafsbandalaginu og hrært þessu öllu í einhvern stóran og ljótan graut en það er ekki staðreynd málsins. Staðreynd málsins er sú að Atlantshafsbandalagið er alþjóðasamtök sem vinnur á grundvelli sammælis allra aðildarríkja þar sem hvert og eitt ríki hefur neitunarvald varðandi stefnu Atlantshafsbandalagsins og það er þannig sem Atlantshafsbandalagið vinnur.

Hv. þingmaður sagði áðan, ef við höldum áfram með hans eigin rök, að við ættum að starfa í umboði Sameinuðu þjóðanna. Við störfum í dag í umboði Sameinuðu þjóðanna. Það liggur fyrir að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna óskar eftir því að þessu verkefni verði haldið áfram með þeim hætti sem nú er. Þess vegna er sá áburður sem er að finna í greinargerðinni sérstaklega ósmekklegur þar sem látið er að því liggja að aðgerðir friðargæsluliðsins séu með einhverjum hætti brot á alþjóðalögum vegna þess að aðgerðir friðargæsluliðsins hvíla auðvitað á því umboði sem það hefur frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hér er þess vegna nokkuð langt seilst og sýnir að hv. flutningsmönnum er kærara að veifa röngu tré en öngvu þegar kemur að röksemdafærslu fyrir þessari tillögu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta verkefni er auðvitað erfitt og það kemur í kjölfar styrjaldar. Sú styrjöld varð blessunarlega skammvinn en hún hafði að markmiði að losa okkur við ógnarstjórn talibana og ég held að það hafi verið mikil landhreinsun að þeim stjórnvöldum.

Hv. þingmaður sagði að það væri vonlaust mál að koma á friði í kjölfar átaka, vegna þess að það fólk sem fyrir sprengjunum yrði æli slíkt ógnarhatur í brjósti sér í garð þeirra sem hefðu staðið að styrjöldinni. Það er ekki bara þannig sem sagan er, hv. þingmaður. Ég ætla bara að benda á þær tvær þjóðir sem líklega hafa þurft að þola meiri sprengingar en nokkrar aðrar í veraldarsögunni, Japan og Þýskaland. Þau mynduðu mjög náið samband við það ríki sem var í fararbroddi aðgerðanna vegna þess að almenningur í þessum löndum gerði sér grein fyrir því, þegar þoku skammtímaáróðurs hafði létt, að aðgerðirnar höfðu beinst að ofbeldismönnum sem fóru með stjórn þjóðarinnar en ekki þjóðinni sjálfri. Það er varhugavert að tala með þessum hætti og mæla þar með upp uppgjafarhug á alþjóðavettvangi í garð ofbeldisseggja sem fara með ófriði gegn sínum eigin þjóðum og öðrum, en það er því miður nokkur plagsiður í utanríkisstefnu vinstri grænna.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur til að við förum burt frá Afganistan. Það er eins og í því liggi sú hugsun að með því bætum við með einhverjum hætti hlutskipti þess fólks sem þar býr. Hvaða aðstæður mundu ríkja þar? Hv. þm. Jón Magnússon kom með ágætisupptalningu á ýmsum þeim ávirðingum sem bornar hafa verið á stjórnvöld í Afganistan. Setjum sem svo að helmingurinn af þeim væri sannur. Væru aðstæður hjálparstofnana og þeirra sem eru að reyna að rétta hag venjulegs fólks í Afganistan betri ef menn hefðu horfið frá því ætlunarverki? Þetta verkefni mun að sjálfsögðu taka langan tíma. Það getur þess vegna tekið 40 ár, 50 ár gera menn ráð fyrir. En það eru ekki rök fyrir því að gefast upp á því. Atlantshafsbandalagið tókst á hendur mjög erfitt verkefni árið 1996 með friðargæslu í Bosníu. Árangurinn af því er ótvíræður og hann er mjög merkilegur og það sýnir sig að Atlantshafsbandalagið er mjög vel til þess fallið að vinna út úr erfiðri stöðu með þessum hætti og skapa mannúðarsamtökum og alþjóðasamfélaginu aðstæður til að vinna, því að engum friði verður komið á ef þeir sem ætla að veita aðstoðina við að byggja upp samfélögin þurfa að óttast vopnaða árás dag og nótt.

Virðulegi forseti. Ég vil í framhaldi af því sem hæstv. utanríkisráðherra rakti, sem var mjög gott, um þá samstöðu sem verið hefur um þátttöku nágrannaríkja okkar í verkefninu í Afganistan, velta áfram upp þeirri spurningu: Á hvaða vegferð eru hv. þingmenn Vinstri grænna? Það er ekki aðeins í þessu máli heldur flestum öðrum sem þeir skera sig algerlega úr í samanburði við flokkssystkini sín á Norðurlöndum og í norðanverðri Evrópu. Maður fer að velta því fyrir sér hvernig menn í þeim ágæta flokki hugsa sér stefnu þess flokks í alþjóðamálum þegar menn eru komnir í þá stöðu vegna óánægju með eigin gengi að flytja inn kosningastjóra Samfylkingarinnar til að reyna að laga andrúmsloftið á miðstjórnarfundi Vinstri grænna og berja í menn hugrekki, sem þeir greinilega búa ekki til í heimahögum, þá vildi ég kannski benda þeim á að það væri líka ágætt að horfa til stefnu Samfylkingarinnar. Það skyldi þó ekki að vera að árangur Samfylkingarinnar umfram Vinstri græna í þingkosningum stafaði af því að stefna þeirra væri nokkuð skynsamlegri og ekki eins full af óskhyggju og löngun til að búa til draumaverksmiðju sem ekki á sér nokkra stoð í raunveruleikanum?

Það liggur fyrir að alþjóðasamfélagið hefur falið Atlantshafsbandalaginu þetta verkefni. Það liggur fyrir að við vinnum á borgaralegum forsendum í þessu verkefni. Það liggur líka fyrir að þetta verkefni er unnið eftir þeirri forskrift sem Sameinuðu þjóðirnar hafa veitt. Þess vegna er það ekki annað en tilraun til að draga athyglina frá aðalatriðum málsins að reyna að búa til einhverja ósk um eitthvað annað, eitthvað sem heitir alþjóðlegt samstarf en má ekki heita NATO af því að NATO er vont, af því að við sögðum í fyrra að NATO væri vont en við höfum í sjálfu sér engin rök fyrir því af hverju NATO er vont.

Virðulegi forseti. Það er þessi endaleysa í röksemdafærslu sem ég er nokkuð ósáttur við (Gripið fram í.) og það væri óskandi að hv. flutningsmenn endurskoðuðu tillöguna í ljósi þess að um þetta verkefni er samstaða á vettvangi alþjóðasamfélagsins. Og ef það er sannanlega tilgangur þeirra að búa þessu verkefni umgjörð sem er þess eðlis að það sé í samræmi við þær kröfur sem alþjóðasamfélagið setur þá hefur það verið gert og umboð Sameinuðu þjóðanna til þessa verkefnis er skýrt og óskorað.