135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:35]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði hér áðan, og mótmælti því sem ég hélt fram, að engin skilgreind markmið væru með veru NATO í Afganistan, hvað ætti að gera og hvernig ætti að ljúka því verkefni sem um er að ræða. Hann mótmælti þessu og sagði að markmið væru skilgreind og væru þau að aðstoða við að koma á friði í Afganistan. En það er spurning hvernig því er háttað og hvernig á að framkvæma það. Menn hafa nú staðið í þessu verkefni í sex ár og hv. þingmaður talaði um að þetta gæti tekið 40 eða 50 ár. Hvert er þá markmiðið? Með hvaða hætti sér þingmaðurinn að þetta gerist og hvernig er aðgerðaáætlunin um að þróunin verði á þessu tímabili?

Hv. þingmaður sagði: Það eru engin rök fyrir að gefast upp í verkefninu. Fullyrðingin er sett fram með alröngum hætti. Spurningin er fyrst og fremst þessi: Voru einhvern tíma rök fyrir því að takast á við þetta verkefni? Og ég segi nei. Það voru aldrei rök fyrir því.

Í annan stað. Þegar fyrir liggur að ákveðin ríkisstjórn hefur haft sex ára tímabil með billjóna dollara stuðningi, með gríðarlegum stuðningi við uppbyggingu, friðarstarf og annað, en hefur engan innri styrk og ræður ekki einu sinni höfuðborginni er þá einhverjum árangri náð? Og þegar verið er að vísa í veraldarsöguna til að sýna fram á að menn séu á vondri leið að berjast um fallin vígi þá snýst spurningin ekki um hugleiðingar um uppgjöf heldur um skynsemi.