135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:02]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var mikil eldræða hjá friðarsinnanum mikla Ögmundi Jónassyni sem vill helst ekki að Íslendingar blandi sér með nokkrum hætti í erfið mál í fjarlægum löndum jafnvel þó það sé sammæli um það hjá alþjóðasamfélaginu eins og í Afganistan að láta þau mál til sín taka og taka fulla ábyrgð á ástandinu sem þar hefur skapast.

Hann dregur samlíkingu á milli Íraks og Afganistans og segir að þar sé algjörlega líku saman að jafna. Það er náttúrlega algjörlega ólíkt Afganistan og Írak vegna þess að það dregur enginn í efa lögmæti aðgerðanna í Afganistan. Það er fullkomið lögmæti á þeirri aðgerð. Hún er á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það hefur verið fjallað um þetta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa falið NATO þetta verkefni. Margt má auðvitað gagnrýna í framkvæmd verkefnisins. En um lögmæti verkefnisins og alla atburðarásina sem hefur verið þar á undanförnum árum (Forseti hringir.) ættu menn ekki að efast.

(Forseti (RR): Forseta láðist í upphafi að geta þess að þar sem fjórir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar þá er ræðutíminn styttur í eina mínútu.)