135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Reyndar gaf hv. þm. Árni Páll Árnason fjölda tilefna til andsvara og ítarlegra umræðu við hann, til dæmis þegar hann fjallaði um hryðjuverkamenn án umboðs, sem væru án umboðs. Hann vísaði þar til talibana væntanlega í Afganistan. Hverjir skyldu vera hryðjuverkamenn með umboð? Gætu það verið einhverjir samverkamenn Íslendinga í Afganistan? Ég leyfi mér að spyrja.

Að við hrærum (Gripið fram í.) saman í einn graut óskyldum málum er rangt. (Gripið fram í.) Það er rangt vegna þess að við grundvöllum okkar tilvísanir á einum sameiginlegum samnefnara. (Gripið fram í.) Og hver er sá samnefnari? Hann er NATO og það er samstarfið innan NATO og við herskáasta stórveldi heimsins nú um stundir, Bandaríkin. Það er þetta samhengi sem við erum að gagnrýna. (Forseti hringir.) Við erum ekki að gagnrýna það að Íslendingar láti gott af sér leiða á erlendum grundvelli, en á þessum forsendum, það er það sem við erum að gagnrýna. Þetta (Forseti hringir.) er grauturinn sem greinilega hrærist innan í höfuðkúpunni á hv. þingmanni.