135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú vandast málið. Nú erum við farin að ræða söknuð Framsóknar yfir því að við skyldum fara út úr Írak, sem ég taldi reyndar til mikilla bóta og hrósaði ríkisstjórninni fyrir þegar það skref var stigið. Við viljum að hið sama gildi um Afganistan, að við förum út úr hernaðarsamstarfinu þar. Við erum þar á vegum NATO, í samstarfi við NATO. Við segjum hins vegar að það væri til bóta að vera þar á öðrum forsendum, það væri strax til bóta. En við ítrekum að við eigum að beina sjónum okkar annað í heiminum en þangað sem herveldin herja.