135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum mikið miðstýringar- og ríkisvæðingarfrumvarp. Þar er gert ráð fyrir því að ríkið eigi allar orkulindir. Ef það skyldi slysast til að kaupa einhverjar þá má það ekki selja þær aftur. Hið sama gildir um sveitarfélögin. Þetta minnir dálítið á Sovétríkin enda er í greinargerð minnst á rammaáætlun í staðinn fyrir 5 ára áætlun. Þar segir að opinbert eignarhald á auðlindum auðveldi framkvæmd slíkrar stefnumörkunar. Þá er talað um að skynsamleg nýting orkulinda hafi mikið efnahagslegt gildi, þ.e. í hendur ríkisins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að nýtingin sé betri í höndum ríkisins en hjá einkaaðila, Væri þá ekki skynsamlegt að stofna skóbúð ríkisins o.s.frv.?

Síðan er spurningin: Hvers vegna er eignarréttarákvæði í stjórnarskránni yfirleitt?

Þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað óttast hann, ef einkaaðilar eignast orkuauðlindirnar? Hvað er svona skelfilegt?

Síðan vildi ég spyrja: Hvað gera orkufyrirtæki þegar fimm ár eru eftir af 65 ára afnotaréttinum, þegar það reynir að kreista eins mikið út úr auðlindinni og hægt er? (GÁ: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins?)

Í greinargerð með málinu segir, með leyfi forseta:

„Íslendingar líta á dreifikerfi raforku og hitaveitna sem meðal mikilvægustu innviða þjóðfélagsins. Því er mikilvægt að áfram verði tryggt opinbert eignarhald að þessari starfsemi …“

Ég spyr: Hvað með síma, net- og fjármálakerfi? Er ekki mikilvægt að það sé í opinberri eigu? (GÁ: Hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins?) Hvað með bújarðir, svo maður tali fyrir fyrrv. hæstv. landbúnaðarráðherra? Hvað með bújarðir? Eru þær ekki auðlind líka, er ekki mikilvægt að þær séu í eigu ríkisins?