135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Spurningarnar sem hv. þingmaður varpaði til mín varða öll meginatriði frumvarpsins. Sumum þeirra svaraði ég áðan. Ég hygg að ég þyrfti kannski 30 mínútur til að svara þeim öllum.

Hv. þingmaður spyr hvernig sá sem hefur fengið auðlind til ráðstöfunar tímabundið muni fara með auðlindina þegar hann nálgast lyktir þess tíma sem hann hefur auðlindina til varðveislu. Hv. þingmaður sagði: Mun hann þá ekki kreista allt út úr henni? Ég ímynda mér að hann sé að hugsa um jarðvarmasvæði. Nú er séð fyrir þessu vegna þess að í lögum er farið nákvæmlega yfir það hvernig Orkustofnun og opinberir aðilar eiga að hafa eftirlit með því að um sé að ræða sjálfbæra nýtingu.

Að því er stjórnarskrána varðar er það, eins og ég skýrði í ræðu minni, umdeilt atriði. En ég geri þetta samkvæmt bestu vitund. Ég hef fengið þann mann sem ríkisstjórnin hefur sýnt mestan trúnað, að því er varðar stjórnarskrána, til að skoða þetta. Hann komst að þeirri niðurstöðu að eitt af því sem ég hafði hug á að gera væri ekki heimilt og ég féll frá að leggja það fram. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hitt væri heimilt. Ég fór að því.

Þetta er mál sem nefndin skoðaði. Ég hef sagt það mörgum sinnum í umræðunni af öðru tilefni að ég hef engan hug á að brjóta stjórnarskrána.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort ríkið sé betra til að reka orkulindir en einkamarkaðurinn. Orkulindirnar og uppbygging orkufyrirtækja á Íslandi sker sig frá öllum öðrum geirum atvinnulífsins að því leyti að hún hefur að öllu leyti farið fram innan vébanda ríkisins, fyrir atbeina ríkisins með fjárfestingum ríkisins. Það eina sem menn ætla með þessu frumvarpi er að koma í veg fyrir að auðlindirnar verða seldar frá ríkinu.

Það er ekki hægt að halda því fram að rekstur þessara fyrirtækja hafi ekki skilar miklu fyrir neytendur og ríkið. Þau eru gríðarlega mikils virði og við sjáum líka, hvað neytendur varðar, að hér á Íslandi hefur orðið raunlækkun á orkuverði miðað við raunhækkun í nánast hverju einasta landi Evrópu síðustu árin.