135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:55]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um gæði að ræða sem eru eign þorra þjóðarinnar. Það liggur ljóst fyrir af þeim umræðum sem hafa farið fram að þorri þjóðarinnar er hlynntur því að eignarhaldið verði áfram eins og verið hefur.

Ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa misskilið eitthvað í frumvarpinu þegar hann talar um ríkisvæðingu og sósíalíseringu og líkir mér við Pútín Rússlandsforseta. Hefur hv. þingmaður ekki tekið eftir því að það er í gadda slegið í þessu frumvarpi að þeir sem fara með handhöfn orkuauðlindanna geta leyft afnot af þeim tímabundið? Það kemur fram í 1. gr. frumvarpsins mig, minnir að það sé í 4. málsgrein, að það eigi að vera á grundvelli jafnræðis. Með öðrum orðum: allir Íslendingar, öll fyrirtæki eiga að standa jafnfætis hvað það varðar að fá réttinn til að nýta auðlindirnar. Með því fær framtak einstaklinga og frumkvæði fyrirtækjanna með ákjósanlegum hætti notið sín. Hér er hins vegar um að ræða grundvallarágreining milli mín og hv. þingmanns, milli þeirra sem hafa svipuð sjónarmið og ég og hins vegar þeirra sem styðja hv. þingmann. En ég vil í tilefni þessara orðaskipta vekja athygli á því að ég veit ekki betur en hver einasti formaður þeirra stjórnmálaflokka sem sæti á á Alþingi Íslendinga hafi lýst sams konar viðhorfum, lýst því yfir að það eigi ekki að einkavæða auðlindirnar. Svo einfalt er það.

Ég vísa t.d. til ágætis viðtals við suma þessara formanna stjórnmálaflokkanna, m.a. 12. október síðastliðinn í Viðskiptablaðinu. (PHB: Er auðlindin bújörð?)