135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er loksins komið til umfjöllunar frumvarp sem við höfum beðið nokkuð eftir, frumvarp sem hefur verið lengi í burðarliðnum, frumvarp til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra gerði að umræðuefni í miklu viðtali í Viðskiptablaðinu þann 20. september sl. áður en það þing sem nú situr settist hér á sína stóla. Þetta er auðvitað eitt af átakamálum samtímans, þ.e. með hvaða hætti eignarhaldi á auðlindunum okkar er fyrir komið og ég ætla að byrja á því, áður en ég fer ofan í efnisþætti frumvarpsins, að ítreka sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum.

Við viljum að eignarhald á auðlindinni, hvort sem er vatnsauðlindinni eða jarðhitaauðlindinni, sé að mestu í höndum þjóðarinnar, í almannaeigu. (PHB: Í moldinni?) Við erum á öndverðum meiði við Sjálfstæðisflokkinn sem, eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals, telur þetta vera mikið þjóðnýtingar- og miðstýringarfrumvarp. Við vitum það öll sem hér sitjum og þau sem fylgst hafa með þessari umræðu undanfarnar vikur og mánuði að frumvarp þetta sat fast svo vikum skipti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins einmitt vegna sjónarmiða á borð við þau sem hv. þm. Pétur Blöndal talar fyrir. Það hefur því ekki verið einfaldur róður hjá hæstv. iðnaðarráðherra að koma þessum stefnumiðum sínum, sem hann var farinn að tala af miklum krafti um áður en þetta þing settist hér í haust að hann ætlaði sér að koma í gegn á þessu þingi. Það er hálft ár síðan viðtalið við hæstv. ráðherra birtist í Viðskiptablaðinu.

Engu að síður, frumvarpið er komið fram og margt í því góðra gjalda vert að mati okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Enda erum við ekki á sama máli og Sjálfstæðisflokkurinn í þessum efnum sem hefur ítrekað ályktað á landsfundum sínum að það beri að einkavæða orkumarkaðinn. Ég held að það sé í síðustu landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins sem segir að landsfundurinn vilji að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjunum til einkaaðila og það sé gert sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að í kosningabaráttunni sem fór fram síðasta vor gerðust auðvitað þau tíðindi, sem eru í sjálfu sér hluti af eða undanfari þessa frumvarps sem hér er mælt fyrir, að ljóst varð að Geysir Green Energy, fyrirtæki í einkaeigu, hafði boðið í rúmlega 15% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja — sem fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði ákveðið að setja á markað — svo hátt verð að það má segja að í einu vetfangi hafi verðmat allra orkufyrirtækja landsmanna verið hækkað upp úr öllu hófi, svo mikið að það var almannarómur að engin innstæða hefði verið fyrir því verðmati. Hreyfingin og rótið sem komst á orkufyrirtækin og orkumarkaðinn við þessa gjörð, að 15% hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja skyldi hafa verið boðinn upp, orsakaði þann styr sem staðið hefur linnulaust síðan.

Auðvitað er angi af þessu stóra máli það sem síðan kemur upp þegar REI-málið kemst í hámæli í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Þá eru það átök um einkavæðingu orkuauðlindanna, átök um það hvort einkaaðilar eigi að geta tekið þekkingu og mannauð sem safnast hefur saman í opinberum fyrirtækjum og farið með hann í útrás til erlendra ríkja til þess að setja þar upp fyrirtæki sem ætlað var að gera eigendur sína enn ríkari en þeir voru. (ÓN: Sjálfstæðisflokkurinn stoppaði það.) Ég kýs, hæstv. forseti, að láta þetta frammíkall frá hv. þm. Ólöfu Nordal sem vind um eyru þjóta, en það kann þó að vera að ég komi einhvers konar kommenti til hv. þingmanns fyrir í síðari ræðu minni. (REÁ: Þetta er bara sannleikurinn.)

Sannleikurinn er auðvitað sá, hæstv. forseti, að átökin um auðlindirnar kristallast í sjónarmiðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins, kristallast í þeim sjónarmiðum sem sá flokkur stendur fyrir. Það er auðvitað ástæðan fyrir andsvari því sem hæstv. iðnaðarráðherra fékk frá hv. þm. Pétri H. Blöndal hér áðan, það er ástæðan fyrir því hvernig komið var í þingflokki Sjálfstæðisflokksins þegar málið lá hjá honum vikum saman, hreyfðist ekki og var ekki afgreitt frá honum fyrr en á elleftu stundu má segja.

Varðandi frumvarpið sjálft og markmið þess haldast þau auðvitað í hendur við markmið raforkulaga frá 2003 sem eru í hólf og gólf það að efla hér einhvers konar samkeppni á raforkumarkaði. Það var sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þeim tíma og er enn að tilskipunin sem raforkulögin byggjast á hafi ekki átt erindi til okkar Íslendinga og það hefði verið rétt á þeim tíma sem hún leit dagsins ljós að taka hana ekki upp í EES-samninginn. Við töluðum fyrir því og forverar þingmanna okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingmenn úr Alþýðubandalaginu, töluðu fyrir því þegar farið var að glitta í þessi spil að umsvifalaust ætti að sækja um undanþágu frá raforkutilskipuninni. Satt að segja hafa þær raddir verið að ágerast núna á síðustu missirum sem vilja að við segjum skilið við hugmyndafræðina um samkeppni á raforkumarkaði. Hvers vegna? Jú, vegna þess sem hefur orðið eftir þessa innleiðingu markaðsvæðingar á raforkumarkaði, það er enginn grundvöllur fyrir samkeppni í raforkusölu á Íslandi. Það sagði hæstv. iðnaðarráðherra sjálfur í ræðu sinni hér fyrr í vikunni þegar talað var um (Iðnrh.: Ég sagði að það væri engin samkeppni.) — að það væri engin samkeppni, ég segi að enginn grundvöllur sé fyrir henni og ræða hæstv. iðnaðarráðherra fyrr í vikunni sýnir það og sannar þegar hann leiðir okkur í sannleikann um að sárafáir raforkunotendur hafi skipt um raforkusala á því tímabili sem liðið er frá því að raforkulögin gengu í gildi. Prósentuhlutfallið er 0,35% á þeim rúmu þremur árum sem þessi lög hafa verið í gildi — 0,35% kjósa að nýta sér þá samkeppni á raforkumarkaði sem við þóttumst vera að innleiða hér í lög með raforkulögunum.

Ég segi því, hæstv. forseti: Er ekki tími til að endurskoða frá grunni þá hugmyndafræði og fara að viðurkenna það sem við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum haldið fram, að hér er enginn grundvöllur fyrir slíku? Ég tel að þó svo að farið verði í þá uppskiptingu sem hér er mælt með, að dreifingin og raforkuframleiðslan verði sett í tvö aðskilin fyrirtæki, þá sé það ekki nein töfralausn heldur og það sé jafnvel lausn sem eigi eftir að kosta fyrirtækin talsvert mikla fjármuni. Sjáum nú til, ef fyrirtækjaaðskilnaður verður á þessum fyrirtækjum, sem eru núna bókhaldslega aðskilin og ættu þar af leiðandi að standast allar kröfur samkeppnislaga, þó að Samkeppniseftirlitið segi að svo sé ekki, þurfa nýju fyrirtækin, sem yrðu stofnuð á grundvelli þessara laga, auðvitað sitt húsnæði og sína nýju forstjóra og þeir er nú ekki ókeypis þessir forstjórar nú til dags. Það er því alveg ljóst að hugmyndafræðin, um uppskiptingu fyrirtækjanna og fyrirtækjalegan aðskilnað, kemur til með að kosta fyrirtæki, sem nú eru að langmestu leyti í opinberri eigu, verulega fjármuni.

Hvernig er svo þessi umgjörð sem hæstv. iðnaðarráðherra talar hér fyrir? Hún er jú sú að fyrirtækin eigi að vera, þessi fyrirtæki sem hafa yfir auðlindunum að ráða, að 2/3 hlutum í opinberri eigu. Hvernig er eignarhlutfallið í dag? Eignarhlutfallið er þannig að þessi fyrirtæki eru öll í eigu opinberra aðila, þau eru í samfélagslegri eigu að undanskildum þessum hlut sem ríkisstjórnin ákvað að selja í Hitaveitu Suðurnesja. Nú spyr ég og vil fá skýr svör: Er hægt að hugsa sér að tryggja það að orkufyrirtækin sem öll eru í opinberri eigu utan Hitaveitu Suðurnesja verði áfram 100% í eigu opinberra aðila en Hitaveita Suðurnesja verði sett inn í sérlög og um hana gildi önnur lög en þau sem gilda um önnur orkufyrirtæki sem eru þá í 100% eigu opinberra aðila? Hvað er því til fyrirstöðu að axarskaft fyrri ríkisstjórnar verði bara rammað inn í sérlögum sem gildi um það fyrirtæki eitt og sér?

Hæstv. forseti. Með því að setja þetta upp með þeim hætti sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur kosið — og ríkisstjórnin öll virðist standa að baki hæstv. ráðherra, þó að ekki virðist allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla að fylgja í þeim efnum — erum við að taka þá áhættu að 1/3 þessara fyrirtækja rati út á markað. Í mínum huga er verið að skapa ákveðna hættu á því að 1/3 hluti þeirra fyrirtækja sem nú eru í opinberri eigu verði markaðssettur og einkavæddur. Ég veit ekki hvort ég sá blik í auga hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar ég sagði þetta (Gripið fram í.) en það kann að vera að þetta verði einn af þeim meginþráðum sem fylgt verður í þessari umræðu, hvort hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, sé hér að tala fyrir því að losað sé um eignarhald á 1/3 hluta opinberra fyrirtækja og þau sett út á markað. Skýr svör við því, hæstv. iðnaðarráðherra, óskast í síðara innleggi á síðari stigum umræðunnar.

Varðandi það hvort mögulegt sé að setja upp einhvers konar sérreglu um Hitaveitu Suðurnesja velti ég því upp hvort á einhvern hátt sé hægt að binda í lög um það fyrirtæki, ef sett yrðu um það sérlög, að því væri óheimilt að lækka eignarhlut opinberra aðila frá því sem nú er. Ég mundi vilja tryggja að sá hluti þess fyrirtækis sem enn er í opinberri eigu verði það áfram.

Það er vert að nefna það í þessari umræðu, af því að við erum að fjalla um orkufyrirtækin, sem heyra undir hæstv. iðnaðarráðherra, að veitufyrirtækin okkar, vatnsveiturnar og fráveiturnar, eru fyrirtæki sem ber líka að skoða í þessu samhengi. Þau heyra hins vegar ekki undir hæstv. iðnaðarráðherra heldur undir sveitarstjórnarlög og hafa þá við breytingu á Stjórnarráðinu farið frá hæstv. félagsmálaráðherra til hæstv. samgönguráðherra — þar erum við með löggjöf sem við ættum að skoða á sama tíma og þessa. Ef ég fer rétt með eru þetta veiturnar okkar með þeim hætti að þar er skylda að þær séu í meirihlutaeigu opinberra aðila en ekki að 2/3 hlutum, ekki 100%, sem ég hefði nú talið að væri eðlilegt, því að ég tel að það sé orðið verulega mikils virði og tímabært að tryggt sé að auðlindirnar, vatnsauðlindin og jarðvarmaauðlindin, séu að sem mestu leyti og helst að fullu og öllu í eigu þjóðarinnar og ég teldi áríðandi að slík skilgreining kæmist inn í stjórnarskrá.

Við skulum rifja upp þau átök sem urðu í stjórnarskrárnefndinni sem starfaði hér langt fram á síðasta ár þegar átti að láta reyna til hlítar á þá hugmyndafræði að auðlindirnar væru skilgreindar sem eign þjóðarinnar í stjórnarskrá. Hvað gerðist? Það fór allt upp í loft í nefndinni og hún varð að slíta störfum án þess að skila nokkurri niðurstöðu. Þetta nefni ég hér til þess að fólk átti sig á því hversu djúpstæður ágreiningurinn um þessa hugmyndafræði er. Ég tel að mikil átök geti orðið í nefndinni sem á að fjalla um þetta mál og við séum ekki búin að sjá til enda í því. Engu að síður tel ég að þær hugmyndir sem varða hið sameiginlega eignarhald séu mikilvægar og þess eðlis að þjóðin sé sammála þeim. Það hefur sýnt sig — það sýndi sig í átökunum sem urðu í stjórnarskrárnefndinni þegar skoðanakannanir voru gerðar snemma síðasta árs — að þjóðin er á þeirri skoðun að auðlindirnar eigi að vera í þjóðareigu og það eigi að vera skilgreint í stjórnarskránni. Einhvern tíma verðum við því að finna okkur leið út úr þeim vanda, þeim ágreiningi sem við höfum átt í í þessum efnum, og ég tel að þetta frumvarp sé alveg eins tilefni til þess að leiða þau mál til lykta en það verður sennilega ekki gert á endanum fyrr en ný stjórnarskrárnefnd tekur sæti og fjallar um þetta fyrir alvöru.

Hæstv. forseti. Nú bitna nýju þingsköpin á manni. Margt af því sem mig langaði til að segja í þessari ræðu minni verður að bíða síðari ræðu. Ég ætlaði m.a. að fara yfir ummæli forkólfa Samtaka iðnaðarins, sem bíða eftir einkavæðingu orkugeirans, og fleiri aðila til þess að benda enn frekar á þá hættu sem ég tel vera í þessu máli. Engu að síður tel ég að ég hafi komið til skila þeim kjarna sem ég helst vildi.