135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er, eins og áður hefur komið fram í umræðum okkar, mín og hv. þingmanns, andstæðrar skoðunar um gildi samkeppni á orkumarkaði. Ég færði sterk rök fyrir því hér á mánudaginn að efla þyrfti samkeppni. Ég var þar með einar þrjár hugmyndir sem ég taldi að gætu hugsanlega leitt til aukinnar samkeppni þannig að kjarabætur neytenda sæju dagsins ljós.

Hv. þingmaður varpar til mín tveimur spurningum. Spyr hvort ég telji mögulegt að sett verði sérstök lög eða lagaákvæði um Hitaveitu Suðurnesja þar sem því fyrirtæki yrði bannað að eignarhlutur opinberra sameigenda í því fyrirtæki yrði lækkaður frá því sem nú er. Mig minnir að ég hafi rætt þetta við einhvern hv. þingmann í fyrirspurn fyrir jól. Mitt svar, sem ég stend hér, án þess að hafa skoðað það, er á þann veg að ég tel að það mundi ekki standast stjórnarskrá. Hv. þingmanni, sem ég held að eigi sæti í iðnaðarnefnd, er hins vegar frjálst að láta skoða þetta en ég tel að þetta sé ekki gerlegt og þetta sé ekki æskilegt.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort með þessu sé meðvitað, eins og hún orðaði það, verið að hrekja 1/3 hluta fyrirtækja út á markaðinn. Að því er varðar nákvæmlega þá stöðu sem nú ríkir lagalega um orkufyrirtæki ríkisins, a.m.k. tvö þeirra, Landsvirkjun og Rarik, verður það nú ekki gert nema með lagabreytingum. Öðru máli gegnir um Orkubúið af því að ekki er að finna neitt sérstakt lagaákvæði þar af sérstökum sögulegum ástæðum þannig að það verður ekki gert án þess að hv. þingmaður geti a.m.k. látið í ljósi skoðanir sínar hér.

Að því er varðar sveitarfélögin að öðru leyti þá er ekkert í lögunum í dag sem hindrar að þau geti selt orkufyrirtæki sín. Hver er reynslan í því efni?