135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel einmitt að sveitarfélögin hafi ekki farið út á þessa braut vegna þess að þar sé skilningur á því að þetta séu fyrirtæki sem þurfi og eigi að vera í almannaeigu og í umsjá almannavaldsins.

Hins vegar tel ég að það sé grafið undan þeirri samstöðu með málflutningi eins og Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haft varðandi þessi mál. Líka með því að tortryggja stöðugt þá viðleitni manna sem hafa viljað skilgreina þennan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskránni. Ég tel því að hér séu vígi sem þarf að styrkja og ég tel að það sé mjög mikilvægt að í þessari lagasetningu reynum við eftir föngum að styrkja þær varnir sem við höfum gagnvart ásælni þeirra sem vilja einkavæða raforkumarkaðinn. Það eru mjög sterkir aðilar í atvinnulífinu, og að ég tali nú ekki um sterkan stjórnmálaflokk eins og Sjálfstæðisflokkinn, sem vilja fara þá leið.

Síðan varðandi ákvæði um Hitaveitu Suðurnesja. Hæstv. iðnaðarráðherra segir að hann hafi efasemdir um að það muni standast stjórnarskrá. Ég á reyndar ekki sæti í iðnaðarnefnd. Fyrir okkur, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, á hv. þm. Álfheiður Ingadóttir þar sæti en hún er nú stödd í New York og ég veit að hana klæjar í fingurna að vera í þessari umræðu. En ég verð að gefa henni skýrslu um hana síðar. Hún mun að sjálfsögðu kanna þetta mál til hlítar eða tryggja það að málið verði kannað til hlítar í nefndinni.

Varðandi það hvort standi til að setja einn þriðja af fyrirtækjunum út á markað þá vil ég segja að vissulega þarf lagabreytingar varðandi Landsvirkjun og Rarik. En það hefur nú eitt og annað verið þvingað hér í gegn með meirihlutavaldi og ég veit ekki alveg hvort Samfylkingin nær að standa nægilega vel í ístaðinu í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn hvað þetta varðar. Nú þegar hefur það komið fram í umræðunni að náttúruverndarlínan sé dregin í sand og þá efast ég um að Samfylkingin, eða ég veit að Samfylkingin á eftir að þurfa að standa fast í ístaðinu gegn þessari kröfu (Forseti hringir.) sjálfstæðismanna.