135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:17]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður notaði hugtakið auðlind dálítið opið og því vil ég gjarnan spyrja hana: Hvað er auðlind? Hv. þingmaður sagði nefnilega að auðlindir ættu að vera í eigu ríkisins. (KolH: Þjóðarinnar.) Þjóðarinnar. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða munur er á ríki og þjóð? Það er þá önnur spurningin. Ég vil líka spyrja hana: Er moldin auðlind? Og ætti þá moldin að vera í eigu þjóðarinnar eða ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar, þ.e. allar bújarðir í landinu? Hvað segir hv. þingmaður um Kárahnjúka? Er það auðlind eða er það orðin auðlind eftir að þar var virkjað? Eða var það auðlind áður?

Það kom fram í svari umhverfisráðherra að Kárahnjúkar spara mannkyninu þvílíkt af koltvíoxíðslosun að það svaraði til minnir mig sexfaldri allri koltvíoxíðslosun Íslendinga. Hvað segir þá hv. þingmaður um losunarkvóta? Er það auðlind? Eða tíðnisvið rafsegulbylgna útvarpsrása? Eða um fiskstofna? Eða, frú forseti, hvað segir hv. þingmaður um mannauðinn? Er hann auðlind og ætti hann að vera í eigu ríkisins?