135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ber á borð úr ræðustól núna er auðvitað hundalógík. Auðlind er hugtak sem hefur yfirgripsmikla skírskotun til þess sem við getum búið til einhvers konar verðmæti úr. Við höfum tekist hér á árum saman, þau tæp tíu ár sem ég hef setið hér höfum við tekist á um það á hverju einasta ári hvort auðlindirnar séu til þess eins að framleiða úr þeim rafmagn eða hvort það sé líka auðlind ef hún er vernduð.

Mín sjónarmið eru þau að auðlindin, vatnsauðlindin, sé auðlind hvort sem hún er virkjuð eða vernduð. Hún skapar auð fyrir samfélagið hvort sem hún er virkjuð eða vernduð. Ég tel að lofthjúpurinn sé auðlind, já. Enda er farið að selja losunarkvóta fyrir mengunarkvóta, kvóta fyrir því að fá að losa CO 2 eða aðrar gróðurhúsalofttegundir upp í lofthjúpinn. Ég tel að sólarljósið sé auðlind, já. Ég tel að mannauður sé auðlind, já.

Síðan varðandi hvort allar þessar auðlindir eigi að vera í ríkiseigu eins og hv. þingmaður orðar það, hvort ríkið eigi að eiga þetta allt saman þá er sú spurning auðvitað lituð af því að hv. þingmaður trúir á einkaeignarrétt, á séreignarrétt. Og ég segi trúir, vegna þess að það jaðrar við að þetta séu trúarbrögð hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að séreignarrétturinn standi öllu ofar.

Í mínum huga er það ekki svo. Í mínum huga er þjóðareign á auðlindum að hluta til hugtak sem verður hvorki keypt né selt en skiptir samt sem áður verulegu máli fyrir ímynd þjóða. En ímynd þjóðar er með þeim hætti að hún verður að hluta til seld og að hluta til keypt en aldrei með húð og hári. Aldrei að öllu. Það er það sem þjóðin vill. Hún vill að ríkisvaldið (Forseti hringir.) standi vörð um auðlindirnar og tryggi að þær verði ekki bara söluvara sem býr til glýju í augu auðmanna. (Forseti hringir.)